Vísir greindi frá því nú í morgun að sumir telja hreinlega að um sé að ræða það að hugmyndirnar séu sérhannaðar fyrir hina ríku. Eyþór Arnalds, leiðtogi Sjálfstæðismanna í borginni, hafnar því.
Líf segir loforðin innantóm
Líf Magneudóttir, sem leiðir lista Vinstri grænna í borginni og er forseti borgarstjórnar, gerir þetta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins svo að umtalsefni í pistli sem Vísir birti nú áðan. Yfirskrift hans er „Innantóm kosningaloforð“ en þar segir meðal annars:
Óheimilt að fella niður fasteignagjöld
Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, fyrrverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar bendir á það hið sama í umræðum sem um þetta eru á Facebook-vegg Gunnars Smára Egilssonar, leiðtoga Sósíalistaflokks Íslands.„Það er ekki heimilt skv. núgildandi lögum um fjármál sveitarfélaga að fella niður fasteignagjöld óháð tekjum. Heimildarákvæði laganna tekur skýrt fram að um sé að ræða ívilnun til tekjulágra.“

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.”
„Einhver hefur platað Eyþór“
Eyþór segir á móti að Vestmannaeyjabær hafi gert þetta um árabil. „Við munum setja reglur um þetta eins og lög segja til um.“ Hann bendir á fundagerð úr Eyjum sem sýnir þetta.En, Eyþór er ekki þar með laus af önglinum. Vilhjálmur segir það furðu sæta ef Vestmannaeyjabær getur komist upp með slíkt þegar það gengur augljóslega bæði gegn bókstaf og anda laganna. Ívilnunin sé hugsuð fyrir tekjulága. Og Gunnar Smári bætir við að þetta sé tekjutengt í Eyjum. „Einhver hefur platað Eyþór.“
Uppfært 14:50
Vísir reyndi að ná tali af Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum með það fyrir augum að inna hann eftir því hvernig útfærslan á þessu hafi verið úti í Eyjum og hvort áhöld hafi verið um hvort sá gerningur standist lög. Það tókst eftir að fréttin var birt og eru svör hans við þeim spurningum eftirfarandi:
„Eldra fólk greiðir ekki fasteignaskatta í Vestmannaeyjum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, þegar þetta var borið undir hann. Og spyr hvaða vitleysa þetta sé?
„Þeir Vestmannaeyingar sem eru 67 ára og eldri greiða ekki fasteignaskatta af eigin heimilum og hafa ekki gert undanfarin ár. Skoðanir á þessu voru nokkuð skiptar á sínum tíma og velferðarráðuneytið óskaði eftir skýringum á því hjá Vestmannaeyjarbæ á hvaða lögum þessi undanþága væri byggð.“
Gæta verði mannvirðingar allra
Elliði segir að þau úti í Eyjum hafi fyrst og fremst vísað í lög um aldraða. „Auk náttúrulega laga um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og fleira. Hið opinbera, þar með talið sveitarfélögin, bera umtalsverða ábyrgð á málefnum aldraðra og lögin leggja sveitarfélögum á herðar ákveðnar skyldur í húsnæðismálum eldri borgara.“
„Okkur fannst við ekki geta setið aðgerðarlaus hjá eftir hrun, þegar kjör eldri borgara voru skert verulega, það var ekki síst þess vegna sem þessi ákvörðun var tekin. Við starfslok lækka tekjur oftast bratt og jafnvel þótt fólk sé eignasterkt. Vegna þess að það á heimili sín þá þyngist rekstur mjög þegar tekjur lækka og þá ekki síst þegar fasteignagjöld rjúka upp eins víða hefur verið á seinustu árum. Við urðum vör við þetta og þótti slæmt ef fólk hrökklast af eigin heimilum. Bærinn hefði á seinustu árum ekki fengið neinar nýjar umkvartanir vegna þessa frá ráðuneytinu og þetta hefði reynst vel.“
Eyjamenn að eldast sem og reyndar aðrir landsmenn
Elliði segir að íbúar í Eyjum séu að eldast eins og annars staðar.„Fólk er að ná hærri aldri, sem er auðvitað ánægjulegt, en skapar okkur ný viðfangsefni. Eldriborgarar eru einnig síbreytilegur þjónustuhópur og hinu endanlega þjónustustigi er aldrei endanlega náð. Þannig eru eldriborgarar dagsins í dag oft við betri heilsu en áður og geta því rekið heimili sín lengur svo fremi sem til dæmis skattheimtu hins opinbera sé stillt í hóf. Þá ber einnig að hafa hugfast að þótt með þessu verði tekjur vegna fasteignagjalda lægri þá er nú dýrasta úrræðið er stofnanaþjónusta og í viðbót við hina almennu mannvirðingu þá er það hreinlega rekstrarlega hagkvæmt að hjálpa fólki að búa heima eins lengi og kostur er,“ segir Elliði sem vill standa með sínum flokksbróður í Reykjavík.
Eyþór Arnalds ræddi kosningaloforð flokksins í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.