Erlent

Fox News lýsir fullum stuðningi við umsetinn þáttastjórnanda

Kjartan Kjartansson skrifar
Sean Hannity er einn allra dyggasti stuðningsmaður Bandaríkjaforseta.
Sean Hannity er einn allra dyggasti stuðningsmaður Bandaríkjaforseta. Vísir/Getty
Stjórnendur hægrisinnuðu sjónvarpsstöðvarinnar Fox News hafa lýst yfir fullum stuðningi við Sean Hannity, þáttastjórnanda á stöðinni, þrátt fyrir að hann hafi ekki greint áhorfendum sínum frá því að hann hefði verið „óformlegur“ skjólstæðingur lögmanns Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Hannity hefur ítrekað fjallað um lögmanninn og varið Trump.

Í ljós kom í gær að Hannity, sem hefur verið einarður málsvari Trump forseta í umræðuþætti sínum á Fox News, hafi verið einn þriggja skjólstæðinga Michaels Cohen, persónulegs lögmanns Trump. Cohen er nú til alríkisrannsóknar í tengslum við greiðslu hans til klámmyndaleikkonu sem segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump.

Þrátt fyrir að hafa fjallað ítrekað um mál Trump og Cohen í sjónvarpsþætti sínum greindi Hannity áhorfendum sínum, eða stjórnendum Fox News, frá hagsmunaárekstri sínum.

Sjálfur segist hann aðeins hafa fengið lögfræðilegar ráðleggingar frá Cohen í tengslum við fasteignamál og hafi aldrei verið raunverulegur skjólstæðingur lögmannsins. Hann hafi aldrei greitt Cohen.

Alríkislögreglan FBI gerði húsleitir á skrifstofu, íbúð og hótelherbergi Cohen í síðustu viku. Dómari í máli hans hafnaði beiðni hans um að fá að halda nafni þriðja skjólstæðings síns leyndu. Á meðal rakanna sem Cohen lagði fram var að nafnbirtingin yrði „vandræðaleg“ skjólstæðingnum.

Hannity hefur sérstaklega verið gagnrýninn á bandaríska meginstraumsfjölmiðla fyrir það sem hann hefur kallað hlutdræga umfjöllun um Trump forseta.


Tengdar fréttir

Fox-liðum fjölgar í Hvíta húsinu

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur að undanförnu ráðið fjölda fólks í Hvíta húsið sem hann hefur séð á Fox News, uppáhald sjónvarpsstöð hans, þar sem stefnumál hans og aðgerðir eru iðulega hyllt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×