Handbolti

Sebastian og Rakel taka við Stjörnunni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sebastian og Rakel munu leiða saman hesta sína næsta vetur
Sebastian og Rakel munu leiða saman hesta sína næsta vetur Vísir/samsett mynd
Sebastian Alexandersson og Rakel Dögg Bragadóttir munu stýra liði Stjörnunnar í Olís deild kvenna á næsta tímabili. Stjarnan greindi frá ráðningu þeirra í dag.

Gerður var tveggja ára samningur við Sebastian og Rakel sem taka við starfinu af Halldór Harra Kristjánssyni sem tilkynnti fyrr í vetur að hanm myndi ekki halda áfram með liðið.

Sebastian hefur verið viðloðandi þjálfun í langan tíma og tekið þátt í uppbyggingu afreksstarfs handknattleiksdeildar Selfoss. Hann þjálfaði síðast meistaraflokk kvenna hjá félaginu en lét af störfum um miðja síðustu leiktíð. Þá er hann þjóðinni góðkunnur af sjónvarpsskjánum en hann hefur verið einn sérfræðinga Tómasar Þórs Þórðarsonar í Seinni bylgjunni í vetur.

Rakel Dögg er ein besta handknattleikskona síðustu ára og hefur þjálfað yngri landslið Íslands ásamt því að vera í þjálfarateymi Stjörnunnar um nokkurt skeið.

„Um leið og við bjóðum Sebastian og Rakel velkomin til starfa viljum við þakka Halldóri Harra og Halldóri Ingólfssyni, fráfarandi þjálfurum fyrir þeirra störf hjá Stjörnunni,“ segir í tilkynningu Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×