Handbolti

Löwen tapaði líka með fullskipað lið

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Pettersson skoraði eitt
Pettersson skoraði eitt vísir/getty
Síðari viðureign Rhein-Neckar Löwen og Kielce í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar lauk nú rétt í þessu en úrslit einvígisins voru nánast ráðin þegar kom að leiknum eftir að Kielce vann fyrri leikinn 41-17.

Þá léku þeir gegn varaliði Rhein-Neckar Löwen þar sem Löwen átti mikilvægan deildarleik sama dag. Í dag mætti Löwen hinsvegar með fullskipað lið gegn Evrópumeisturunum og voru Alexander Pettersson og Guðjón Valur Sigurðsson báðir á leikskýrslu. Alexander skoraði eitt mark en Guðjón ekkert.

Þeir voru ekki einu Íslendingarnir á svæðinu því leikurinn var dæmdur af Jónasi Elíassyni og Antoni Pálssyni.

Skemmst er frá því að segja að Kielce vann öruggan sex marka sigur og vinnur því einvígið með samtals þrjátíu mörkum, 77-47.

Það er því orðið ljóst hvaða átta lið leika í 8-liða úrslitum keppninnar og má sjá einvígin hér að neðan en aðeins eru tveir Íslendingar enn með í keppninni, það eru Tandri Már Konráðsson, leikmaður Skjern og Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.

8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu

Kiel-Vardar

Kielce-PSG

Flensburg-Montpellier

Nantes-Skjern




Fleiri fréttir

Sjá meira


×