Handbolti

Stefán: Mér gæti ekki verið meira sama

Smári Jökull Jónsson skrifar
Stefán Arnarson er þjálfari Íslandsmeistara Fram.
Stefán Arnarson er þjálfari Íslandsmeistara Fram. Vísir/Eyþór
„Ég er fyrst og fremst ánægður með að ná í sigur, það er það mikilvægasta. Þær eru með mjög vel mannað og gott lið og það sýnir styrk okkar að vinna í dag. Ég er mjög ánægður að vinna jafn gott lið og ÍBV,“ sagði Stefán Arnarson þjálfari Fram eftir sigur hans liðs á ÍBV í Safamýrinni í kvöld.

Leikurinn er sá fyrsti í röðinni í undanúrslitaeinvígi liðanna en þrjá sigra þarf til að tryggja sér sæti í úrslitum.

Liðin enduðu í 2. og 3.sæti Olís-deildarinnar eftir afar jafna toppbaráttu en ÍBV hefur þó ekki náð sigri gegn Fram í vetur þrátt fyrir fjórar tilraunir í deild og bikar.

„Eins og búið er að koma fram þá held ég að það hafi munað einu stigi á liðunum í deildinni. Þetta eru mjög jöfn lið og það verður erfitt að spila í Eyjum en gaman. Það eru skemmtilegir áhorfendur og við ætlum að njóta þess að spila þar á fimmtudaginn," bætti Stefán við.

Hrafnhildur Skúladóttir þjálfari ÍBV lék undir stjórn Stefáns hjá Val á sínum tíma þar sem liðið vann ófáa titlana. Þau áttu í sálfræðistríði fyrir bikarleik liðanna í vetur og Hrafnhildur setti pressu á Fram fyrir þetta einvígi og sagði þær langlíklegastar til að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Stefán gaf lítið fyrir það.

„Hvað finnst mér um það sem Hrafnhildur segir? Mér gæti ekki verið meira sama. Þetta er hennar álit og ég segi bara horfið á stigatöfluna og dæmið síðan.“


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Fram - ÍBV 32-27 | Sigur hjá Fram í fyrsta leik

Fram vann 32-27 sigur á ÍBV í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Olís-deildar kvenna en leikurinn fór fram í Safamýrinni í kvöld. Fram leiddi með fjórum mörkum í hálfleik og og eru komnar með yfirhöndina í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×