Íslenska þjóðfylkingin kynnti framboð sitt fyrir sveitastjórnarkosningarnar á blaðamannafundi í dag. Formaður flokksins, Guðmundur Karl Þorleifsson, fór þar yfir helstu stefnumál flokksins en hann mun leiða lista flokksins í Reykjavík.
Á fundinum kom fram að á meðal helstu stefnumála flokksins séu uppbygging mislægra gatnamóta, endurvakning verkamannabústaðakerfisins og að frítt yrði í strætó fyrir námsmenn á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vilja þau afturkalla úthlutun lóðar undir byggingu mosku í Reykjavík og að leyfisveitingar vegna viðbyggingar á bænahúsi múslima í Öskjuhlíð verði dregnar til baka.
Í tilkynningu frá framboðinu segir að flokkurinn vilji gera Reykjavík að fjölskylduvænni borg með opnun fleiri leikskóla og skipulagningu opinna svæða.
Efstu þrjú sæti Íslensku þjóðfylkingarinnar skipa:
1. Guðmundur Karl Þorleifsson, formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar.
2. Hjördís Bech Ásgeirsdóttir, félagsliði.
3. Jens G. Jensson, skipstjóri.
Sveitarstjórnarkosningar fara fram þann 26. maí. Framboð geta sent upplýsingar um lista ásamt mynd á ritstjorn@visir.is.

