Handbolti

„Allt getur gerst ef við náum að lemja aðeins á þeim“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Karen Knútsdóttir er mætt aftur í landsliðshópinn
Karen Knútsdóttir er mætt aftur í landsliðshópinn Vísir/Eyþór
Karen Knútsdóttir, annar landsliðsfyrirliða Íslands, er mætt aftur í íslenska kvennalandsliðið í handbolta eftir meiðsli og verður í liðinu sem mætir Slóveníu í tveimur leikjum í undankeppni EM 2018.

„Það var virkilega gaman að hitta hópinn aftur og við erum búnar að ná góðum æfingum, byrjuðum á sunnudaginn, og erum vel gíraðar í morgundaginn,“ sagði Karen á blaðamannafundi HSÍ fyrir leikinn í dag.

Karen á að baki 86 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur skorað í þeim 310 mörk. Hún sleit hásin í fyrsta leik tímabilsins með Fram, Meistarakeppni HSÍ, og spilaði ekkert með liðinu fyrir áramót.

„Ég reiknaði ekki með að ná þessum landsleikjum. Það er rosalega gaman að vera komin aftur í hópinn, mér líður vel og ég er mjög spennt.“

„Ég er í mjög góðu standi og þessi meiðsli hrjá mig ekki neitt,“ sagði Karen aðspurð hvert ástandið á henni væri, því aðeins eru um 8 vikur síðan hún kom aftur í Framliðið. „Ég er kannski ekki komin alveg á mitt „level“ en það gengur vel samt.“

Ísland er í erfiðri stöðu í riðlinum í undankeppni EM. Liðið er á botninum án stiga eftir tvo leiki og síðasti leikur gegn Dönum í Laugardalshöll tapaðist með 15 mörkum, 14-29. Efstu tvö liðin fara í lokakeppnina ásamt liðinu sem er með bestan árangur í þriðja sæti úr riðlunum 7.

„Ef við ætlum að fara upp úr þessum riðli og kannski stefna á þetta besta þriðja sæti þá verðum við að ná góðum úrslitum á morgun.“

„Það er búinn að vera mikill stígandi í liðinu og við höfum náð góðum úrslitum undanfarið þannig að ég er mjög spennt.“

Ísland tapaði fyrir Þýskalandi en náði svo í tvo sigra gegn Slóvakíu í vináttulandsleikjum sem fóru fram um mánaðarmót nóvember og desember.

„Ef við náum upp mjög góðri vörn og náum að lemja aðeins á þeim og fá nokkur auðveld hraðaupphlaup þá held ég að allt geti gerst,“ sagði Karen Knútsdóttir.

Leikur Íslands og Slóveníu hefst klukkan 19:30 annað kvöld og fer fram í Laugardalshöll. Frítt verður inn á leikinn fyrir alla aldurshópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×