Innlent

Ætla að bregðast við áskorun foreldra vegna Breiðholtsskóla

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Skóla-og frístundasvið mun fá utanaðkomandi fagaðila til að sætta hóp foreldra og skólastjórnendur í Breiðholtsskóla.
Skóla-og frístundasvið mun fá utanaðkomandi fagaðila til að sætta hóp foreldra og skólastjórnendur í Breiðholtsskóla. Vísir/Ernir
Skóla-og frístundasvið hyggst bregðast við áskorun stjórnar foreldarfélags Breiðholtsskóla og fá utanaðkomandi fagaðila til að sætta hóp foreldra og skólastjórnendur skólans. Alls skrifuðu um tvöhundruð foreldrar í Breiðholti undir þessa áskorun.

Samkvæmt upplýsingum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar hefur sviðið haft málefni Breiðholtsskóla til umfjöllunar í rúmt ár til að skapa sátt og vinnufrið um og í skólanum. 

Meðal þess sem hefur verið gert er að framkvæma mat í skólanum og voru niðurstöður kynntar foreldrum og starfsmönnum á síðasta ári. Lögð var rík áhersla á að skólinn ynni að umbótaáætlun og úrbótum. Skólinn skilaði úrbótaáætlun í október á síðasta ári og má nálgast hana á heimasíðu hans.

Fagna þessari áskorun

Stjórn foreldrafélags skólans hefur síðustu vikur staðið fyrir undirskriftarsöfnun á netinu á íslensku, ensku og pólsku þar sem kemur fram að um nokkurn tíma hafi skólastarf í Breiðholtsskóla litast af óánægju milli hóps foreldra og skólastjórnenda sem hafi haft neikvæð áhrif á skólabraginn. Skorað er á skóla- og frístundasvið að sætta deiluaðila með hjálp utanaðkomandi fagaðila.

Skólastarf Breiðholtsskóla hafi liðið of lengi fyrir stöðu mála og  bæði kennarar og nemendur hætt sökum þess. Undirskriftasöfnuninni er lokið en alls skrifuðu um 200 foreldrar í Breiðholti eða núverandi eða fyrrverandi starfsmenn skólans undir áskorunina. Helgi Grímsson sviðstjóri skóla- og frístundasviðs segir að þegar verði brugðist við.

„Við tökum þessari áskorun fagnandi af því að það skiptir mjög miklu máli að þetta skólasamfélag fái frið og nái sátt þannig að skólastarf geti verið með eðlilegum hætti og að allir vinni saman, foreldrar, nemendur og starfsmenn að góðu skólastarfi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×