Fótbolti

Spánn skoraði sex gegn Argentínu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn Spánar fögnuðu oft í kvöld. Það var glatt á hjalla hjá þeim.
Leikmenn Spánar fögnuðu oft í kvöld. Það var glatt á hjalla hjá þeim. vísir/afp
Spánn gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir Argentínu, 6-1, í vináttulandsleik liðanna sem fór fram á Estadio Wanda Metrpolitano leikvanginum í Madríd.

Fyrsta markið lét ekki bíða eftir sér því það kom strax á tólftu mínútu er Diego Costa kom Spánverjum yfir. Isco tvöfaldaði svo forystuna fimmtán mínútum síðar en Nicolas Otamendi minnkaði muninn fyrir hlé.

2-1 í hálfleik og einhverjir héldu að síðari hálfleikurinn yrði jafn og spennandi en það varð heldur betur ekki niðurstaðan. Isco skoraði annað mark sitt og þriðja mark Spánverja á 52. mínútu og Thiago Alcantara kom Spáni í 4-1 þremur mínútum síðar.

Iago Aspap skoraði fimmta spænska markið á 74. mínútu og ekki mínútu síðar fullkomnaði Isco þrennu sína er hann kom Spán í 6-1. Það urðu lokatölur leiksins.

Þvílíkt burst en Argentína er með Íslandi í riðli á HM í sumar eins og kunnugt er. Lionel Messi lék ekki með Argentínu vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×