Enski boltinn

Englendingar bíða eftir fréttum af Kane eins og við bíðum eftir fréttum af Gylfa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane og Gylfi Þór Sigurðsson eigast hér við á EM 2016.
Harry Kane og Gylfi Þór Sigurðsson eigast hér við á EM 2016. Vísir/Getty
HM í fótbolta í Rússlandi er í hættu hjá fleirum en íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni því enski landsliðsframherjinn Harry Kane meiddist einnig í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Harry Kane meiddist á ökkla í leik Tottenham og Bournemouth og fór af velli eftir aðeins 34 mínútna leik. Gylfi Þór Sigurðsson meiddist á hné en harkaði af sér og kláraði leikinn.





Meiðsli Harry Kane komu til eftir að hann lenti í samstuði við Asmir Begovic, markvörð Bournemouth-liðsins. Kane skoraði reyndar þarna mark en markið var dæmt af vegna rangstöðu og enski framherjinn yfirgaf völlinn í kjölfarið.

Báðir þurfa þeir Gylfi og Kane hinsvegar að fara í frekari skoðun í dag og þá kemur betur í ljós hversu alvarleg meiðslin eru og hversu lengi þeir verða frá.

Harry Kane yfirgaf Bournemouth á hækjum sem boðaði ekki gott fyrir framhaldið og það sem verra er að þessi meiðsli hans eru á stað sem Kane hefur oft meiðst á áður.





Mauricio Pochettino, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði Kane hafa meiðst á hægri ökkla og að þetta væru möguleg liðbandameiðsli. Kane varð fyrir svipuðum meiðslum á móti Sunderland snemma á síðasta tímabili.

Kane var þá frá í tvo mánuði frá milli september og nóvember 2016 og hann var einnig frá í tvær og hálf viku frá mars til apríl 2017 vegna sömu meiðsla. Þessi hægri ökkli hans er því enn á ný til vandræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×