Vímaðir ökumenn voru fyrirferðamiklir í útköllum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Einn þeirra, sem stöðvaður var á Eyrartröð, ók til að mynda á ljósastaur og lét sig síðan hverfa. Þegar lögreglumenn höfðu hendur í hári hans þótti ljóst að ökumaðurinn var undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Þá er hann einnig sagður hafa ekið án réttinda og á hann einnig að hafa staðið í hótunum við lögreglumenn. Ökumaðurinn var því fluttur í fangageymslu þar sem hann hefur fengið að sofa úr sér vímuna.
Á Dalbraut var ökumaður jafnframt stöðvaður vegna undarlegs aksturslags. Hann er sagður hafa ekið undir áhrifum sterkra deyfi- eða svefnlyfja. Ekki fylgir sögunni hvernig mál hans endaði en ólíklegt verður að teljast að hann hafi fengið að halda ökuferð sinni áfram.
Þá bárust lögreglu ábendingar á fimmta tímanum í morgun um ökumann sem sat í kyrrstæðri bifreið með hljómtækin á hæsta styrk. Aðspurður er ökumaðurinn sagður hafa framvísað ætluðum fíkniefnum og var málið afgreitt á vettvangi.
