Fótbolti

HM-búningur Íslands fer í sölu í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi góði hópur fékk fyrstu treyjurnar gefins.
Þessi góði hópur fékk fyrstu treyjurnar gefins. Vísir/Rakel Ósk
Nýr búningur íslenska karlalandsliðsins í fótbolta er nú orðinn opinber og það má búast við mikilli eftirspurn allstaðar að úr heiminum.

Hér á Íslandi verður hægt að kaupa nýja íslenska landsliðsbúninginn í Jóa útherja strax í dag frá klukkan 17:00 og hefst sala í Útilíf klukkan 18:00. Þá er einnig hægt að nálgast hann á www.errea.is.

Ítalska íþróttavörufyrirtækið Errea Sport framleiðir íslenska búninginn eins og búninginn sem íslenska liðið spilaði í á Evrópumótinu í Frakklandi.

Flestar aðrar þjóðir á HM hafa fyrir nokkru frumsýnt búningana sína en íslenski búningurinn kemur með seinni skipunum og aðeins þegar 91 dagur er í fyrsta leik heimsmeistarakeppninnar í Rússlandi.

Ísland er á leiðinni á sitt fyrsta heimsmeistaramót í Rússlandi í sumar þar sem fyrsti leikurinn verður á móti Lionel Messi og félögum í argentínska landsliðinu 16. júní næskomandi. Íslensku strákarnir mæta einnig Nígeríu og Króatíu í riðlinum og vonandi verða leikirnir fleiri en þrír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×