Innlent

Eltir leikhúsdrauminn laus úr fjötrum karlmennskunnar

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Saga Tómasar hefu vakið athygli.
Saga Tómasar hefu vakið athygli. VISIR/ Atli Arnarsson
Tómas Gauti Jóhannsson er einn íslenskra karlmanna sem hafa tjáð sig á samskiptamiðlinum Twitter undir myllumerkinu #karlmennskan.

„Um leið og þetta karlmennskumyllumerki byrjaði fór ég að hugsa um þetta. Ég skellti þessu tvíti bara út í hálfkæringi og bjóst alls ekki við því að það myndi fá þessi viðbrögð.“ segir Tómas í samtali við Vísi.

Tómas deildi sögu af þegar hann var í fimmta bekk og skráði sig í leiklistarnámskeið. Viðbrögðin sem Tómas fékk höfðu áhrif á hann næstu árin.

„Það var ekki mikið um tækifæri til að stunda leiklist á Seltjarnarnesi,“ segir Tómas en einn daginn kom þó tækifærið þegar boðið var upp á leiklistarnámskeið í félagsmiðstöð skólans. „Ég hugsaði með mér að ég yrði að nýta þetta tækifæri!“

Námskeiðið fór fram í matsal skólans og var Tómas eini strákurinn á námskeiðinu. „Daginn sem námskeiðið byrjaði var þetta búið að spyrjast úr í skólanum. Strax í frímínútunum var ég farinn að heyra orð eins og kelling og hommi. Ég man að einn strákur sem fór í ballett lenti í svipaðri stríðni.“

„Ég veit að það ætlaði sér enginn að vera vondur. Það þótti bara fáránlegt að strákur væri að fara á námskeið með fjórtán stelpum.“

Námskeiðið fór fram í matsal skólans þar sem voru stórir gluggar. „Strákarnir fóru ekki á æfingu heldur stóðu þeir við gluggann. Þeir bönkuðu á gluggann, hlógu og gerðu grín af mér.“

Námskeiðið skaraðist við fótboltaæfingu Tómasar. „Ég mætti seint og það voru allir flissandi og pískrandi þegar ég labbaði inn. Þjálfarinn var búinn að frétta að ég væri að koma seint af því ég var á leiklistaræfingu. Það hnussaði í honum „Hvað varstu bara á leiklistaræfingu?“ Svo brosti hann út í annað og hristi hausinn meðan hann labbaði í burtu, eins og til að sýna hversu fáránlegt þetta væri.“

Eftir þetta hélt Tómas áhuga sínum á leiklist leyndum. „Ég fór í prufur fyrir kvikmyndir og ég man að ég sagði engum frá því, ekki einu sinni besta vini mínum.“

Eitt sinn bauðst Tómasi að fara á sett þegar verið var að taka upp sketsaþáttinn Stelpurnar. „Ég þóttist vera veikur til að þurfa ekki að mæta á settið. Ég var hræddur um að ég myndi enda í skets og það yrði gert grín að mér.“

Í 10. bekk kom svo stórt tækifæri fyrir Tómas þegar hann tók þátt í uppfærslu á Grease. „Það taka allir þátt í leikritinu tíunda bekk. Ég tók þátt og ég gjörsamlega blómstraði. Ég man hvað ég dýrkaði það.“

Þegar komið var í menntaskóla sótti Tómas leiklistarnámskeið á vegum leikfélagsins en skýldi sér á bakvið það að hann væri þar fyrir félagsskapinn. Það var svo fyrir hvatningu góðs vinar sem Tómas varð virkur í leiklist og tók að skríða úr skelinni

„Það var ekki fyrr en ég var 18-19 ára að ég fór að taka þessu alvarlega.“

Tómas er í dag 24 ára og vinnur í að því að komast inn í leiklistarskóla erlendis. Hann bíður nú spenntur eftir ferð til Liverpool þar sem hann er kominn í lokaúrtak í inntökuferlinu hjá draumaskólanum.

Tómas er ekki sá eini sem hefur tjáð sig undir myllumerkinu #karlmennskan um hvernig staðlaðar hugmyndir um karlmennsku hafa haft áhrif á líf hans og áhugamál en hér að neðan má finna fleiri dæmi.


Tengdar fréttir

Berjast gegn „eitraðri karlmennsku“ með reynslusögum

Samfélagsmiðlabylting undir myllumerkinu #karlmennskan hefur vakið mikla athygli á vefnum í dag. Að baki átakinu standa karlmenn sem vilja uppræta "eitraða karlmennsku“ og varpa ljósi á skaðlegar staðalímyndir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×