Enski boltinn

Enski og skoski landsliðsþjálfarinn berjast um leikmann Man United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott McTominay.
Scott McTominay. Vísir/Getty
Scott McTominay hefur stimplað sig inn í lið Manchester United á þessu tímabili en þessi 21 árs gamli strákur er uppalinn hjá United og hefur verið þar í sextán ár.

Jose Mourinho hefur notað hann inn á miðju Manchester United að undanförnu og nú vilja bæði landsliðsþjálfari Englands og landsliðsþjálfari Skotlands fá strákinn í sitt landslið.

Það lítur úr fyrir að landsliðsþjálfarnir séu nú báðir að hefja herferð með það markmið að sannfæra strákinn um að velja frekar sitt landslið. Enska landsliðið er á leiðinni á HM í Rússlandi í sumar en Skotar sátu eftir með sárt ennið.

Scott McTominay mun hitta Alex McLeish, þjálfara skoska landsliðsins, á fimmtudaginn kemur og þá ætlar Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, að mæta á æfingasvæði Manchester United í dag til að ræða við McTominay.





Scott McTominay hefur ekki leikið landsleik á ferlinum. Hann er fæddur í Lancaster í Englandi en faðir hans er skoskur sem gefur honum tækifæri til að spila frekar fyrir skoska landsliðið.

Það vakti mikla athygli á dögunum þegar Scott McTominay var frekar í byrjunarliði Manchester United heldur en 89 milljón punda maðurinn Paul Pogba þegar liðið spilaði sinn fyrri leik á móti Sevilla í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Scott McTominay hefur leikið alls 17 leiki á leiktíðinni en hann hefur verið í byrjunarliðinu í síðustu þremur leikjum. Jose Mourinho lét hann fylgja eftir Eden Hazard í leiknum á móti Chelsea um síðustu helgi.

Scott McTominay kom til Manchester United þegar hann var aðeins fimm ára en í október skrifaði hann undir nýjan samning sem heldur honum hjá félaginu til ársins 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×