Innlent

Aðsókn í íþróttafræði stóraukist eftir flutning frá Laugarvatni

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Íþróttafræðin færðist frá Laugarvatni 2016.
Íþróttafræðin færðist frá Laugarvatni 2016. visir/Stefán
Aðsókn í nám í íþróttafræðum við Háskóla Íslands hefur aukist gríðarlega eftir að námið var flutt frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Þetta segir Hafþór Birgir Guðmundsson lektor í íþróttafræðum við Háskóla Íslands.

„Við höfum verið með allt að hundrað umsóknir og erum með 70 nemendur núna. Þannig að það margfaldaðist miðað við hvernig þetta var. Síðasta árið er ennþá á Laugarvatni og útskrifast í vor, þau eru fá 17 nemendur. En það breytist ýmislegt við það að fara í bæinn, aðstaðan og valáfangar og fleira,“ segir Hafþór.

Nám í íþróttafræði við Háskóla Íslands var flutt í bæinn árið 2016 og haustið 2016 byrjuðu fyrstu nemendur eftir breytingar. Nemendur sem voru þegar í náminu hafa klárað frá Laugarvatni og munu síðustu nemendurnir útskrifast þaðan í vor. Staðsetning námsins var talin ein meginástæða fyrir því að aðsókn í námið hafði farið minnkandi með hverju ári.

Aðsókn í HR minnkaði fyrst

Aðsókn í sama nám við Háskólann í Reykjavík dróst saman fyrsta árið eftir að námið við Háskóla Íslands var flutt í bæinn.

„Það hefur tvisvar sinnum verið tekið inn í námið eftir að þessar breytingar urðu. Það datt niður fyrsta árið en rauk svo aftur upp. Við tökum ekki mikið fleiri inn en 40 til 45 svona almennt. Ég held að við höfum tekið 30 inn árið sem að HÍ kom í bæinn og svo bara fullann bekk eftir það,“ segir Hafrún Kristjánsdóttir sviðsstjóri íþróttafræðisviðs við Háskólann í Reykjavík.

Ekki náðist í Sigríði Láru Guðmundsdóttur formann námsbrautar í íþróttafræði við Háskóla Íslands við gerð þessarar fréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×