Handbolti

René Toft yfirgefur Alfreð og fer sömu leið og Aron Pálmars gerði á sínum tíma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
René Toft Hansen verst hér Aroni Pálmarssyni í landsleik á móti Íslandi.
René Toft Hansen verst hér Aroni Pálmarssyni í landsleik á móti Íslandi. Vísir/Getty
Danski landsliðsmaðurinn René Toft Hansen mun spila sína síðustu leiki með Kiel á þessu tímabili. Línumaðurinn öflugi yfirgefur þýska félagið í sumar.

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, verður því án eins síns besta leikmanns á síðasta tímabilinu sínu með Kiel liðið. Samningur Alfreð rennur út sumarið 2019.

Alfreð er að missa René Toft á sama hátt og hann missti Aron Pálmarsson fyrir tæpum þremur árum. Líkt og Aron á sínum tíma þá fer René Toft frá Kiel til ungverska félagsins Veszprém.

René Toft Hansen er þó ekki að gera langan samning við nýja félagið sitt. Hann festir sig bara í eitt tímabil hjá ungverska félaginu.





„Ég er mjög ánægður með að fara yfir til Veszprem. Ég hef spilað í sex ár í Kiel en það hefur verið mjög spennandi að spila mína leiki hér Veszprem og andrúmsloftið hefur verið ótrúlegt,“ sagði René Toft Hansen við heimasíðu Veszprém.

„Ég tel að ég og félagið höfum sömu markmið. Ég hef ekki unnið Meistaradeildina og sá titill er líka á óskalista Veszprém,“ sagði René Toft.





René Toft er 33 ára gamall. Hann hefur þrisvar komist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en tapað í öll skipitin.

René Toft varð aftur á móti Evrópumeistari og Ólympíumeistari með danska landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×