Innlent

Vilja hefja frekara samstarf milli Suður-Kóreu og Íslands í menntamálum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Lilja Dögg segir að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og marki nýtt upphaf í samskiptum þjóðanna á sviði menntamála.
Lilja Dögg segir að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og marki nýtt upphaf í samskiptum þjóðanna á sviði menntamála. Stjórnarráðið
Kim sang-Kon, menntamálaráðherra og varaforsætisráðherra Suður-Kóreu, tók á móti Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra í Seoul í dag.

Á fundinum var ákveðið að hefja samstarf á milli menntamálaráðuneytanna með það að leiðarljósi að efla menntun, rannsóknir og þróun. Nú þegar eru samningar á milli háskóla ríkjanna um skiptinám.

Suður-Kóreska menntakerfið hefur komið vel út í alþjóðlegum samanburði. Kim sagði að velgengni menntakerfisins væri góð umgjörð í kringum kennarastarfið en það nýtur mikillar virðingar þar í landi. Þá kom einnig fram í máli hans að stjórnvöld í Suður-Kóreu leggi áherslu á samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir kennara og rík áhersla sé lögð á símenntun þeirra.

Lilja Dögg segir að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og marki nýtt upphaf í samskiptum þjóðanna á sviði menntamála.

„Kennarastarfið er í hávegum haft í Suður-Kóreu og færri komast að í kennaranámið en vilja. Það er mikilvægt að styrkja alla umgjörð í kringum kennarastarfið og fara í markvissar aðgerðir til takast á við þann mikla kennaraskort sem blasir við að öðru óbreyttu“, segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Lilja Dögg hefur undanfarna daga kynnt sér suður-kóreskar menntastofnanir en hún er nú stödd á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×