Erlent

ESB kannar hvort hætta skuli með sumar- og vetrartíma

Atli Ísleifsson skrifar
Upphaflega var talið að með því að breyta klukkunni væri hægt að spara mikla orku.
Upphaflega var talið að með því að breyta klukkunni væri hægt að spara mikla orku. Vísir/Getty
Evrópuþingið samþykkti í dag tillögu um að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli kanna og taka af skarið með hvort að hætta eigi með sumar- og vetrartíma í Evrópu.

Tillagan um að Evrópa skuli hætta að breyta klukkunni tvisvar á ári er nú frá Finnum komin, eftir að finnska þinginu bárust um 70 þúsund undirskriftir þar sem þrýst var á að endurskoða skuli sumartímann. SVT segir frá.

Ekkert aðildarríki ESB getur einhliða hætt með sumar- og vetrartíma og var málið því tekið upp á Evrópuþinginu þar sem meirihluti var á finnska þinginu fyrir hugmyndinni.

Öll aðildarríki Evrópusambandsins eru skyldug til að flýta klukkunni um klukkutíma á tímabilinu frá síðasta sunnudegi í mars til síðasta sunnudags í október.

Núgildandi tilskipun ESB um sumartíma tók gildi árið 2001 og kveður á um innleiðingu sumartíma á EES-svæðinu. Ísland samdi þá um sérstaka undanþágu frá henni.

Upphaflega var talið að með því að breyta klukkunni væri hægt að spara mikla orku, en reynslan hefur sýnt að sá sparnaður hefur verið mun minni en áætlað var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×