Enn berast tilkynningar um innbrot á höfuðborgarsvæðinu en óhætt er að segja að um faraldur hafi verið að ræða á síðustu vikum. Brotist var inn í heimahús í austurborginni í gærkvöldi og var lögreglunni tilkynnt um innbrotið um klukkan 23:00. Lítið er vitað um málið að svo stöddu; ekki hverjir voru þar að verki eða hvað nákvæmlega var tekið ófrjálsri hendi. Málið er þó til rannsóknar, rétt eins og fjöldamörg önnur innbrot í Reykjavík og nágrenni síðustu vikur og mánuði.
Sjá einnig: Innbrotahrinan hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir mikla umfjöllun
Þá ók lögreglan á bifreið ökumanns sem ansaði ekki skipunum hennar. Ökumaðurinn hafði reynt að hrista lögreglubifreiðina af sér á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði en var að lokum stöðvaður á Hvaleyrarbraut þegar lögreglan ók á vinstra afturhorn bifreiðarinnar. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og var fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu þar sem hann hefur fengið að sofa vímuna úr sér. Ætla má að hann verði yfirheyrður þegar ástand leyfir.
Enn brotist inn í höfuðborginni

Tengdar fréttir

Innbrotahrinan hvergi nærri á undanhaldi þrátt fyrir mikla umfjöllun
"Við erum að sjá að aðferðirnar eru svipaðar.“

Gruna að glæpasamtök stundi innbrot á höfuðborgarsvæðinu
Lögreglan segir fjölda innbrota eiga það sameiginlegt að vera framin á daginn og að skartgripum og peningum sé stolið á meðan önnur verðmæti séu látin ósnert.