Erlent

Vísindamenn argir vegna þess sem þeir telja „geimveggjakrot“

Kjartan Kjartansson skrifar
Peter Beck, stofnandi Rocket Lab með Mannkynsstjörnuna. Gervihnötturinn er með 65 hliðar til að hann skíni sem skærast.
Peter Beck, stofnandi Rocket Lab með Mannkynsstjörnuna. Gervihnötturinn er með 65 hliðar til að hann skíni sem skærast. Rocket Lab
Gervihnöttur sem er sérstaklega hannaður til að endurvarpa miklu sólarljósi og skína skært á himninum sætir harðri gagnrýni áhugastjörnufræðinga og vísindamanna. Hnötturinn á að vera listaverk en hann gæti skemmt fyrir rannsóknum á jörðu niðri.

„Skemmdarverk“, „diskókúla“, „geimveggjakrot“ og „geimrusl“ eru dæmi um lýsingar vísindamanna og áhugamanna um Mannkynsstjörnuna, gervihnött nýsjálenska einkarekna geimferðafyrirtækisins Rocket Lab.

Mannkynsstjörnunni var skotið á loft fyrr í þessum mánuði og komið fyrir á braut um jörðu. Þar á gervitunglið að vera í níu mánuði. Það er hannað til skína svo skært að það sé sýnilegt með berum augum á jörðu niðri.

Yfirlýst markmið með hnettinum er að vekja jarðarbúa til umhugsunar um hvernig þeir tengjast allir á reikistjörnunni sem þeir deila. Vísindamennirnir sjá hins vegar aðeins ljósmengun sem spillir fyrir rannsóknum.

Washington Post segir að ef Mannkynsstjarnan flýgur í gegnum sjónsvið sjónauka á jörðu niðri eyðileggi það athuganir þeirra. Fyrirtækið svaraði ekki fyrirspurn blaðsins en í svari á Twitter við gagnrýni sagði það gervihnöttinn aðeins lifa í skamma stund. Aftur á móti boðaði það einnig fleiri útgáfur af Mannkynsstjörnunni í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×