Innlent

Fjögur innbrot í Flatahverfi einu

Sveinn Arnarsson skrifar
Hrina innbrota hefur gengið yfir Garðabæ á nýju ári
Hrina innbrota hefur gengið yfir Garðabæ á nýju ári
Hrina innbrota hefur gengið yfir Garðabæ á nýju ári og hafa íbúar fundið fyrir því. Fjögur keimlík innbrot hafa verið framin í skjóli myrkurs á virkum dögum frá áramótum í Flatahverfi einu. Garðbæingar kalla eftir aukinni sýnilegri gæslu.

„Það vita það allir sem vilja vita að lögreglan hefur ekki fengið það fjármagn sem hún þarf til að efla sýnilega löggæslu og það er einn hluti vandamálsins. Við sem sveitarfélag höfum verið að leita ýmissa leiða til að efla öryggi íbúanna. Til að mynda með tilraunaverkefni með lögreglunni og fleirum með myndavél sem sýnir hverjir fara inn og út af Álftanesi. Það verkefni hefur þegar sannað sig,“ segir Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar.



Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar.
Garðbæingar hafa skipst á skilaboðum um innbrotin á samfélagsmiðlum en þau eru öll nokkuð keimlík. „Einnig leggjum við áherslu á virka nágrannavörslu og höfum haldið íbúafundi til að ræða við íbúa um þessi mál og upplýsa. Samfélagsmiðlarnir eru líka mikilvægir og íbúar eru duglegir að miðla upplýsingum. Þetta er auðvitað óþolandi, að eigum fólks sé stolið í skjóli myrkurs,“ bætir Áslaug Hulda við.

Áslaug Hulda segir það í skoðun hvort fjölga megi slíkum vélum til að auka öryggi íbúa. „Garðabær hefur einnig fengið öryggisfyrirtæki til að auka sýnilegt eftirlit á kvöldin og á nóttunni þegar svona mál hafa komið upp.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×