Innlent

Sauðfjárbændur fagna nýju fjármagni

Baldur Guðmundsson skrifar
Íslenskt sauðfé í réttum.
Íslenskt sauðfé í réttum. vísir/eyþór
Landssamtök sauðfjárbænda fagna því að fyrstu aðgerðir gagnvart greininni séu fram komnar. Þetta kemur fram í umsögn samtakanna við fjáraukalög ársins 2017. Í frumvarpinu er lagt til að 665 milljónum króna verði varið til málaflokksins til að bregðast við markaðserfiðleikum sem að greininni hafa steðjað.

Lagt er til að 300 milljónum verði varið í greiðslu til bænda vegna kinda á vetrarfóðrum, 200 milljónum í svæðisbundinn stuðning til viðbótar við gildandi búvörusamning og 100 milljónum til að undirbyggja verkefni á sviði kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar. Þá verði 15 milljónum varið í úttekt á afurðastöðvakerfinu. Þá er þeim möguleika haldið opnum að verja 50 milljónum króna til að auka hagræðingu í greininni, leiði úttektin slíkan möguleika í ljós.

Landssamtök sauðfjárbænda segjast í umsögninni styðja heilshugar að ráðist verði í vandaða úttekt á allri virðiskeðjunni, frá bónda til neytenda. Það sé mikilvægur liður fyrir framtíðarlausnir greinarinnar. „Í framhaldinu er nauðsynlegt að fara í frekari vinnu til að styrkja rammann utan um greinina svo henni séu boðin lífvænleg skilyrði. Það er ekki boðlegt til framtíðar að treysta þurfi á sértækar aðgerðir þegar fall verður á mörkuðum vegna utanaðkomandi aðstæðna með tilheyrandi óvissu um aðgerðir,“ segir í umsögninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×