Við viljum aðstoða fólk við að verða besta útgáfan af sjálfu sér með aukinni hreyfingu, bættu mataræði og síðast en ekki síst nánu og skemmtilegu samfélagi,“ segir Elín Jónsdóttir en Grandi101 er fjölskyldufyrirtæki í eigu tvennra hjóna, tvíburasystranna Elínar og Jakobínu Jónsdætra og eiginmanna þeirra, Núma Snæs Katrínarsonar og Grétars Ali Khan.
Á Granda101 er boðið upp á tvenns konar þjálfunarmöguleika – CrossFit og GrandaFit og hafa meðlimir stöðvarinnar aðgang að báðum tímum.

Fjölskyldufyrirtæki með sál
Elín segir þau hjónin lengi hafa rætt á léttu nótunum um að opna CrossFit stöð úti á Granda. „Við systurnar erum aldar upp á Seltjarnarnesi þar sem við búum öll í dag og okkur fannst vanta CrossFit stöð í vesturborgina.“ Númi rak CrossFit Nordic í Stokkhólmi þar sem þau Elín bjuggu en Jakobína hefur þjálfað CrossFit í fleiri ár hér heima en þau hafa öll verið viðriðin íþróttina í mörg ár. Tækifærið datt svo óvænt í hendurnar á þeim sumarið 2016.
„Í ágúst í fyrra vorum við Elín á Íslandi í sumarfríi og fórum á rúntinn niður á Granda. Við enduðum fyrir framan þetta hús, gömlu Hleragerðina, og sáum að þar var engin starfsemi. Við grófum upp eiganda hússins, hringdum í hann og okkur bauðst að leigja húsið. Í framhaldinu ákváðum við fjögur svo að slá til og leggja allt undir,“ segir Númi. „Grandi101 er því fjölskyldufyrirtæki og við leggjum hjarta okkar og sál í þetta.“
Við tók gífurleg vinna þar til stöðin var opnuð í lok febrúar á þessu ári. Húsnæðið hýsti áður járnsmíðaverkstæði en Númi segir þau strax hafa hafa séð mikla möguleika í húsinu.
„Hér voru smíðaðir toghlerar á skip. Við hreinsuðum allt út, háþrýstiþrifum húsið og máluðum hvern flöt, allt með mikilli hjálp fjölskyldu og vina. Húsnæðið er enn í vinnslu en hér er allt sem þarf, tveir stórir salir, góðar sturtur og rúmgóðir búningsklefar, setustofa og meðhöndlunarherbergi,“ segir Númi.

KrakkaFit-, UnglingaFit-, MömmuFit- og grunnnámskeið eru í boði á Granda101.
„Við fyllum hvert námskeiðið á fætur öðru og gætum ekki verið ánægðari með viðtökurnar, þær eru framar björtustu vonum,“ segir Jakobína. „Við mælum með því að fólk taki grunnnámskeið, sem er ein helgi frá kl. 13-16, áður en það mætir í almenna tíma þó það sé ekki krafa hjá okkur eins og staðan er í dag. Fyrir þá sem vilja byrja strax þá bjóðum við upp á tæknitíma í stundaskrá en við erum einnig með frábæra þjálfara sem fara vel yfir tækni í hverjum tíma og sér um að fólk geri engar æfingar sem það ræður ekki við.“ Skráning á námskeiðin sem hefjast í janúar er hafin.

„Þetta er dálítið annað en að æfa í venjulegri líkamsræktarstöð. Við erum eins og ein stór fjölskylda og hér er mjög heimilisleg stemning. Hér æfir fólk alltaf undir leiðsögn og er með sama hópnum á æfingum. Þetta er samfélag og fólk hlakkar til að mæta á æfingar,“ segir Númi.
„Við hvetjum fólk til að mæta til okkar og prófa. Það fær skemmtilegustu líkamsrækt í heimi.“
