Enski boltinn

Lék með Wigan og á síðasta HM en dó aðeins 29 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Carlos Garcia á HM 2014.
Juan Carlos Garcia á HM 2014. Vísir/Getty
Juan Carlos Garcia, fyrrum leikmaður Wigan Athletic og landsliðs Hondúras, tapaði baráttunni á móti við krabbamein og lést áður en hann hélt upp á þrítugsafmælið sitt.

Juan Carlos Garcia var aðeins 29 ára gamall þegar hann lést í gær en í febrúar 2015 uppgötvaðist að hann væri með hvítblæði.





Garcia kom til Wigan í júlí 2013 en eini leikurinn hans fyrir félagið var deildabikarleikur á móti Manchester City. Hann fór í kjölfarið á láni til Tenerife en snéri til baka eftir að hann var greindur með krabbameinið.

Garcia fékk að vera áfram í Bretlandi eftir að samningur hans við Wigan rann út enda var hann ennþá í meðferð. Hann flutti síðan heim til Hondúras í lok síðasta árs.

Juan Carlos Garcia lék alls 34 landsleiki fyrir Hondúras þar á meðal einn þeirra á HM í Brasilíu 2014.

Hann lék sem bakvörður en skoraði eitt mark í undankeppni HM 2014.

Wigan ætlar að minnast leikmannsins með mínútuþögn fyrir leik sinn á móti Peterborough United á laugardaginn kemur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×