Golf

Guðrún Brá náði ekki í gegn á Evrópumótaröðina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mynd/gsí
Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir náði ekki að tryggja sér sæti á Evrópumótaröðinni í golfi í dag er hún lauk leik á lokaúrtökumótinu í Marokkó.

Aðeins 25 efstu kylfingar mótsins vinna sér inn þátttökurétt á Evrópumótaröðinni og var okkar kona nokkuð fjarri þeim hópi. Hún var í 51. sæti fyrir lokadaginn og því vitað mál að það yrði á brattann að sækja. Hún endaði í 53.-56. sæti.

Hún lék á 73 höggum í dag eða á einu höggi yfir pari. Sautjánda holan fór mjög illa með Keiliskonuna. Sú er par 3 en Guðrún Brá lenti í miklum vandræðum á holunni sem hún lék á 6 höggum. Fyrir utan þessa sprengju lék hún vel. Fékk tvo fugla en allar hinar holurnar fór hún á pari.

Guðrún Brá lék hringina fimm í Marokkó á 74, 70, 70, 75 og 73 höggum.

Þetta var í fyrsta sinn sem Guðrún Brá reynir fyrir sér á úrtökumótinu og gerði hún vel í að komast á lokaúrtökumótið. Hún er fjórða íslenska konan sem nær því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×