Fótbolti

Neymar: Ísland verður liðið sem kemur á óvart

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Neymar og Pique fagna marki í leik með Barcelona.
Neymar og Pique fagna marki í leik með Barcelona. vísir/getty
Brasilíska stórstjarnan Neymar telur að Ísland muni verða liðið sem komi á óvart á HM í Rússlandi næsta sumar.

Neymar var í skemmtilegu viðtali við fyrrum liðsfélaga sinn hjá Barcelona, Gerard Pique, í samstarfi við The Players Tribune.

Pique spurði Neymar út í minningar hans frá Heimsmeistaramótum og meiðslin sem Neymar varð fyrir í 8-liða úrslitum mótsins í Brasilíu 2014.

Svo spurði hann hvaða lið myndi koma á óvart, þyrfti ekki að fara alla leið og vinna en myndi standa sig vel. Neymar hugsaði sig um í smá stund og sagði svo Ísland.

„Ísland? Það sama og ég ætlaði að segja,“ svaraði þá Pique.

Neymar sagðist hafa horft á einn leik íslenska landsliðsins í undankeppninni og hrifist af spilamennsku liðsins.

Þeir voru svo sammála um að stundin þegar landsliðið labbar upp að íslensku stuðningsmönnunum og tekur víkingaklappið eftir leiki sé mjög skemmtileg.

Að lokum spurði Pique Neymar hvort hann myndi samþykkja að úrslitaleikurinn yrði á milli Spánar og Brasilíu, endaði 3-3 og Spánverjar ynnu í vítaspyrnukeppni, en Neymar skoraði þrennu. Hann tók því ekki, það væri mikilvægara að vinna en að skora þrennu.

Þetta skemmtilega myndband má sjá hér að neðan, hægt er að nálgast enskan texta með því að ýta á „CC“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×