Innlent

Farþegar bátsins fá aðhlynningu og sálrænan stuðning

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Með samhentu átaki björgunarsveitarfólks og skipverja á nærstöddum bátum tókst að bjarga bátnum frá því að sökkva
Með samhentu átaki björgunarsveitarfólks og skipverja á nærstöddum bátum tókst að bjarga bátnum frá því að sökkva Landsbjörg
Farþegar sem voru á bátnum sem steytti á skeri á Breiðafirði á þriðja tímanum í dag eru komnir til Stykkishólms þar sem hlúð er að meiðslum þeirra og þeim veittur sálrænn stuðningur af Rauða krossinum. Skipstjóri Særúnar, bátsins sem fór með fólkið í land, segir að fólkið hafi verið í talsverðu sjokki.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 14:15 neyðarkall frá farþegabáti sem hafði steytt á skeri á Breiðafirði, um þrjá kílómetra austur af Stykkishólmi. Átta manna bresk fjölskylda var um borð ásamt skipstjóra og slasaðist einn við strandið. Meiðslin eru ekki talin alvarleg.

Með samhentu átaki björgunarsveitarfólks og skipverja á nærstöddum bátum tókst að bjarga bátnum frá því að sökkva og var hann hífður á land í höfninni í Stykkishólmi um fjögur leytið.

Berserkir, björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar, voru kallaðir út á fyrsta forgangi og Björg, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi, sett í viðbragðsstöðu.Landsbjörg
Farþegunum var bjargað um borð í farþegaskipið Særúnu og fór skipið með með fólkið í Stykkishólm. Mattías Arnar Þorgrímsson, skipstjóri Særúnar, segir að hann hafi verið að sigla nálægt slysstað þegar neyðarkallið barst og brugðist fljótt við.

„Við vorum að sigla nálægt þegar neyðarkallið barst og við fórum að reyna að hjálpa til. Eftir tíu mínútur rúmar komum við á staðinn ásamt fleiri bátum og margir hjálpuðust að,“ segir Mattías í samtali við Vísi.

Mattías segir jafnframt að fólkið hafi ekki verið í hættu en að því hafi verið talsvert brugðið. „Það var ekki beint hræðsla um borð en þetta var sjokk náttúrulega. Fólkið var í sjokki en almennt var vel að þessu staðið hjá skipstjóranum um borð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×