Lífið

„Það er fullt af fólki sem líður illa á jólunum“

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
"Ég held að foreldrar öskri til dæmis aldrei jafn mikið á börnin sín eins og í desember," skrifar Aldís.
"Ég held að foreldrar öskri til dæmis aldrei jafn mikið á börnin sín eins og í desember," skrifar Aldís. Vísir / Samsett mynd
„Mig langar að vekja athygli á dálitlu sem berst um í hjartanu mínu alltaf á hverju ári á þessum tíma árs. Tímanum sem á að vera svo ánægjulegur og hamingjusamur og allir með stíft Colgate bros hvert sem farið er því það er svo gaman þegar jólin nálgast. Eða hvað?“ Á þessum orðum hefst pistill sem leikkonan Aldís Davíðs skrifar á Facebook og hefur fengið mikil og góð viðbrögð.

Í pistlinum skrifar hún hve erfið henni finnast jólin, með öllum sínum hraða og stressi. 

„Er það gaman þegar holskefla af blikkandi jólaseríum, tjúlluðum jólasveinum og bleikum jólatrjám með yfir stressuðum foreldrum, brjáluðum börnum og yfirgengilegum kröfum samfélagsins um það að ÖLLUM hlýtur að finnast þetta ÆÐI ER ÞAÐ EKKI gengur í garð? Fyrir mér eru jólin alltaf erfiður tími. Tími þar sem börnin titra af spenningi, eða jafnvel kvíða, og una sér ekki, geta illa slakað á, sofa illa á nóttunni og þráðurinn er styttri en nokkurn tímann. Foreldrar hafa engan tíma fyrir neitt, allt er gert með hraði því það er enginn tími og það þarf að gera þúsund sortir, vinna nóg til að eiga fyrir Vísa reikningnum því jólagjafakaupin eru farin að hlaupa á hundruðum þúsunda,“ skrifar Aldís. Hún segir að jólin fari ekki aðeins illa með börnin, heldur líka foreldrana.

Aldís Davíðs.Vísir / Úr einkasafni

Jólagjafirnar verða að vera fullkomnar

„Ég held að foreldrar öskri til dæmis aldrei jafn mikið á börnin sín eins og í desember því pressan fer líka illa með þau. Jólagjafirnar verða að vera fullkomnar, það þarf að þrífa útúr öllum skápum og þvo upp úr öllum þvottakörfum. Gera jólakort með mynd af hamingjusömu fólki. Jafnvel þó að myndatakan hafi verið algert disaster þá skal fólk fá að sjá hvað þau eru hamingjusöm og þessir krakkar skulu fá að brosa jafnvel þó að það þurfi að múta þeim með heilu piparkökuhúsi. Sem þarf svo einmitt að setja á hinn óendanlega lista fyrir jólin. Svo við tölum ekki um að komast í kjólinn fyrir jólin. Vakna tveimur tímum fyrr til að ná að hamast í ræktinni aukalega því þú bættir á þig í prófatörninni sem er einmitt líka í desember! Auglýsingaflóðið vellur inn um lúguna með öllu því sem allir þurfa að eignast, þrátt fyrir að það hafi ekki verið neitt vandamál að komast í gegnum lífið í nóvember án þessarra hluta,“ skrifar Aldís og bætir við að stressinu linni ekki þegar jólin eru hringd inn.

„Svo loksins kemur aðfangadagur, það er enginn séns að þau hafi náð að gera allt sem þau áttu að gera, klúðruðu meira að segja að aðstoða jólasveininn en skítaredduðu því þrisvar til fjórum sinnum. Lífið stöðvast. Aðfangadagur er komin…. Neibb heldur betur ekki, nú þarf að koma öllum í bað og með börnin hangandi á þeim að spyrja hvenær megi opna þessa pakka. Það þarf að elda eitthvað óaðfinnanlegt því annars eru jólin ónýt, pressan hefur aldrei verið eins mikil og guð hjálpi þér ef þú klúðrar sósunni, óboj. Örmagna fullorðna fólkið fær svo loks að borða eftir að hafa dottað í baðinu áður en krakkarnir ráku þau uppúr. En þeim liggur svo á! Fullorðna fólkið reynir að njóta matarins og biður um þolinmæði, sem á þessum tíma er orðin að engu hjá grísunum sem búið er að snúa upp í jólastress og kvíða fyrir þessu mómenti allan desember.“

Jólin eru erfiður tími fyrir marga.Vísir / Getty Images

Útúrtjúnaðir og uppfullir sykurpúðar

Og þó að aðfangadagur klárist, er jólastressið ekki búið að mati Aldísar.

„Jæja, uppvaskið fær að bíða og pakkarnir eru opnaðir. Allir eru vonandi ánægðir, kanski ekki. En á þessum punkti er no turning back. Eftir þetta er kominn tíminn þar sem loksins, eftir næstum heilan mánuð í ruglinu, er hægt að slaka á. Eða allavega í smá stund þangað til það þarf að fara að svæfa útúrtjúnaða og uppfulla sykurpúða. En kannski verður bara rólegur dagur á morgun. Æ, nei öll jólaboðin. Jæja, bíða bara þar til eftir áramót eftir því að lífið komist í samt lag svo hægt sé að byrja að kvíða fyrir biluninni næsta desember.“

Gleymum ekki að jólin eru tími samveru fjölskyldunnar - ekki rándýrra jólagjafa.Vísir / Getty Images

4000 krónur til að halda jól

Í pistlinum opnar Aldís sig einnig um sína fjárhagsstöðu og hve erfið jólin eru þegar maður hefur lítið á milli handanna.

„Í gær komst ég að því að ég á 4000 krónur til að halda jól, ekki búin að kaupa eina jólagjöf. Svo ég sendi einn reikning og fékk borgað, pening sem átti að vera partur af því að lifa af janúar. Það er hringt í mig annan hvern dag frá einhverjum samtökum og ég beðin að styrkja og ég segi þeim að ég viti ekki hvort ég geti sjálf haldið jól og fæ vandræðalegt svar og svo er lagt á. Áreitið er endalaust. Það er fullt af fólki sem líður illa á jólunum af margvíslegum ástæðum. Peningaskortur, tíminn þegar þú áttar þig að þú þarft að leita til mæðrastyrksnefndar eða að þú þarft að sleppa gjöfum í ár. Eitthvað sem var ekki vandamál í nóvember en núna skrælir samviskubitið í stoltið og þú reynir allt til að geta tekið þátt í þessum rugluðu jólum. Þarf þetta að vera svona mikið tjúll? Það er fallegt að gefa en oft mjög erfitt að þyggja, en fólki er stillt upp við vegg því börnin verða að fá eitthvað fallegt, öll hin börnin fá iPad-a og síma!“

Þá vill Aldís að við munum eftir þeim sem eru búnir að missa ástvini sína eða getur ekki eignast börn.

„Og hvað með fólkið sem er búið að missa ástvini? Hvernig í ósköpunum áttu að halda gleðileg jól með Colgate brosið á yfirkeyrslu þegar fólkið sem þú elskar er ekki á staðnum lengur? Áttu bara með gleði í hjarta að skella inn jólasteik fyrir einn og passa að fara ekki að gráta? Eða foreldrarnir sem fá ekki að vera með börnunum sínum á jólunum? Eða fólkinu sem þráir börn en getur ekki getið þau og horfir á jól barnanna og á að finna hamingjuna án þeirra í hinni eilífu jólasteik fyrir 2. Lífið er flókið fyrirbæri og mér er fyrirmunað að skilja afhverju einu sinni á ári gerum við okkur þetta svona erfitt fyrir.“

Í samtali við Vísi segist Aldís hafa það ágætt og að hún þurfi ekki pening eða lán frá fólki. Það sé ekki tilgangur pistilsins, heldur að vekja athygli á því að það hafi það ekki allir gott um jólin. Hún þakkar samt fyrir þann hlýhug sem henni hefur verið sýndur eftir að hún skrifaði pistilinn.

„Ég fékk fullt af fallegum persónulegum skilaboðum frá yndislegu fólki sem vildi aðstoða mig. En ég benti á að pistillinn er ekki til þess gerður og þetta eru ekki mín jól endilega sem eru svona. Þetta var bara skrifað til að segja að ekki eigi allir gleðileg jól. Og að samfélagið hafi náð að eitra andrúmsloft jólanna og þeir sem minna mega sín fá skellinn.“

Hér fyrir neðan má sjá pistil Aldísar:

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×