Fótbolti

Aron Einar: Hver myndi ekki vilja upplifa þetta?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar og félagar fengu ekki léttasta riðilinn.
Aron Einar og félagar fengu ekki léttasta riðilinn. vísir/hanna
Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson var í hálfgerðu spennufalli þegar hann ræddi við Vísi eftir dráttinn í riðla á HM 2018.

Íslenska liðið lenti í afar erfiðum riðli, með Argentínu, Króatíu og Nígeríu.

„Þetta er ekkert auðveldasti riðilinn,“ sagði Aron Einar.

„Það hefur alltaf verið draumur að mæta þessum alvöru þjóðum sem við höfum aldrei fengið tækifæri til að spila við. Þetta verður upplifun en við höfum engu að tapa. Þetta verður gífurlega erfitt, frábær lið og það verður erfitt að komast upp úr riðlinum.“

Það er óhætt að segja að Ísland hafi lent í sannkölluðum dauðariðli.

„Við þekkjum Króatíu vel og vitum hvað þeir geta. Við höfum ekki náð frábærum úrslitum á móti þeim, þótt síðasti leikur hafi verið mjög góður. Þetta verður úrslitaleikur, sá síðasti í riðlinum,“ sagði Aron Einar.

„Svo er þetta Argentína með Messi og ég veit ekki hverja í framlínunni. Nígería er ekki best skipulagða liðið en með sterka einstaklinga. Við þurfum að hafa mikið fyrir að vinna þá. Þetta er dauðariðill en við höfum trú á okkur og ætlum upp úr riðlinum.“

Aron Einar leiðir íslenska liðið út á Otkrytiye Arena í Moskvu 16. júní á næsta ári og heilsar sjálfum Lionel Messi fyrir leik.

„Hver myndi ekki vilja upplifa það? Þetta verður veisla, að byrja á móti Argentínu. Þetta er virkilega spennandi,“ sagði Aron Einar.

En hefði hann vilja fá viðráðanlegri andstæðinga, allavega á pappírnum?

„Já, hverju átti maður að óska eftir? Það eru líka góð lið í 4. styrkleikaflokki þótt Nígería sé eitt af þeim bestu,“ sagði Aron Einar sem horfði á HM-dráttinn í sófanum heima í Cardiff.


Tengdar fréttir

Argentína ein af átta þjóðum á HM sem við getum mætt í fyrsta sinn

Ísland verður næsta sumar í fyrsta sinn á stærsta sviði fótboltans þegar liðið keppir á heimsmeistaramótinu í Rússlandi en þar gætu strákarnir okkar spilað við þjóðir í fyrsta sinn í sögu íslenska landsliðsins. Leikur á móti Lionel Messi og félögum yrði sögulegur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×