Innlent

Íslendingar óskuðu eftir 3.550 miðum á fyrstu 24 tímum HM-miðasölunnar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það verður múgur og margmenni í Rússlandi á næsta ári.
Það verður múgur og margmenni í Rússlandi á næsta ári. Vísir/Vilhelm
Íslenskir stuðningsmenn óskuðu alls eftir 3.550 miðum á leiki á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu á fyrstu 24 tímum miðasölunnar sem hófst í gær.

Þetta kemur fram í svari FIFA við fyrirspurn Vísis. Þar segir einnig að alls hafi 1.365 miðum verið úthlutað til íslenskra stuðningsmanna vegna fyrsta fasa miðasölunnar sem lauk 28. nóvember síðastliðinn. Í þeim fasa var alls 742.760 miðum úthlutað.

Mikill spenningur er fyrir þáttöku Íslands á HM en dregið var í riðla fyrir mótið í síðustu viku. Ísland lenti í riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu og mun landsliðið spila sína leiki í Moskvu, Volgograd og Rostov-við-Don.

Líkt og komið hefur fram á Ísland rétt á átta prósent miða sem í boði eru á leikina þrjá í riðlakeppninni. Áætlað hefur verið að um 3.200 miðar séu í boði fyrir íslenska stuðningsmenn á hvern leik, að því er kom fram í vikunni á Fótbolta.net



Knattspyrnusamband Íslands hefur reyndar þegar farið fram á það við FIFA, í samvinnu við önnur knattspyrnusambönd, að hlutfall miða sem standi stuðningsmönnum til boða verði hækkað, en ekki hafa fengist svör við þeirri bón.

Miðasalan sem nú stendur yfir og hófst í gær mun ljúka 31. janúar næstkomandi en athygli er vakin á því að ekki er um fyrstur kemur, fyrstur fær” fyrirkomulag að ræða, heldur mun happdrætti ráða för ef umsóknir um miða verða fleiri en í boði eru.

Hægt er að kaupa miða á staka leiki, svokallaða stuðningsmannamiða sem eru miðar á alla leiki Íslands í riðlakeppninni auk þess sem hægt er að að sækja um miða á alla mögulega leiki Íslands í útsláttarkeppninni, en fari svo að liðið komist ekki áfram eru miðarnir ógildir.


Tengdar fréttir

Ekkert mál að komast beint á leiki í HM

Ísland er í riðli með Argentínu, Króatíu og Nígeríu og spilar í D-riðli á Heimsmeistaramótinu. Fréttablaðið skoðaði borgirnar sem Íslendingar munu heimsækja í sumar en auðvelt verður að komast á leikstaði.

Helmingi ódýrara að bóka sjálfur ferð á HM

Aðeins um 3.200 miðar gætu verið eyrnamerktir Íslendingum á hvern leik í Rússlandi. Athugun Fréttablaðsins sýnir að tveggja nátta ferð til Moskvu fyrir tvo, sem þú bókar sjálfur, kostar heldur minna en pakkaferð fyrir einn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×