Fótbolti

HM-drátturinn: Mestar líkur á því að við lendum í riðli með Mexíkó en England ekki líklegur mótherji

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Litlar líkur eru á því að Englendingar fái tækifæri til að hefna þessa taps á HM næst sumar.
Litlar líkur eru á því að Englendingar fái tækifæri til að hefna þessa taps á HM næst sumar. Vísir/Getty
Það eru litlar líkur á því að íslenska landsliðið lendi í riðli með gestgjöfum Rússa eða Englendingum þegar dregið verður í riðla á HM í Rússlandi 2018 á morgun.

Spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo hefur reiknað út líkur á öllum möguleikum úr drættinum sem fer fram í Kremlín um kaffileytið á morgun.

Líklegast er að íslenska liðið lendi með Mexíkó í riðli en ólíklegast er að Ísland og Serbía verði saman. Til þess að Ísland lenti með Serbum í riðli þá þyrftu hin tvö liðin í riðlinum að vera utan Evrópu.

Mexíkó er í öðrum styrkleikaflokki en þar eru líka lið eins og Spánn, England, Kólumbía og Úrúgvæ. Á eftir Mexíkó er líklegast að við lendum í riðli með Suður-Ameríkuþjóðunum Kólumbíu (17,3 prósent), Úrúgvæ (17,3 prósent) og Perú (17,3 prósent).

Það eru aftur á móti aðeins sjö prósent líkur á því lendum í riðli með Englandi en 0,1 prósent hærri líkur eru á því að Spánn, Sviss eða Króatía verði í íslenska riðlinum.

Það er líklegasta að Ísland fái Suður-Ameríkuþjóðirnar Brasilíu og Argentínu úr fyrsta styrkleikaflokki en langólíklegast að Ísland mæti gestgjöfum Rússa.

Nígería er líklegast mótherji Íslands úr fjórða styrkleikaflokki en Nígeríumenn hafa aðeins betri líkur en Marokkóbúar.

Hér fyrir neðan má sjá alla útreikninga Alexis Martín-Tamayo og enn neðar svo líklegustu og ólíklegustu mótherja Íslands á einum stað.







Líklegustu mótherjar Íslands:

Fyrsti styrkleikaflokkur: Brasilía eða Argentína (18,6 prósent)

Annar styrkleikaflokkur: Mexíkó (19,8 prósent)

Þriðji styrkleikaflokkur: Ísland

Fjórði styrkleikaflokkur: Nígería (18,1 prósent)

Ólíklegustu mótherjar Íslands:

Fyrsti styrkleikaflokkur: Rússland (6,4 prósent)

Annar styrkleikaflokkur: England (7,0 prósent)

Þriðji styrkleikaflokkur: Ísland

Fjórði styrkleikaflokkur: Serbía (3,3 prósent)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×