Árni Gils áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar en málið var tekið fyrir þar í gærmorgun. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi hann í fjögurra ára fangelsi fyrir að stinga mann í höfuðuð með hníf í átökum þeirra fyrir utan sjoppu í Breiðholti í mars.
Hjalti Úrsus Árnason, alfraunamaður og faðir Árna Gils, hefur látið mikil til síns taka í tengslum við mál sonar síns. Þannig hefur hann gert heimildarmynd um málið sem hann hefur birt á Facebook-síðu sinni. Segir hann dómsmorð hafa verið framið á syni sínum.
Verjandi Árna Gils gerði að því skóna í morgun að sök hefði verið komi á skjólstæðing sinn í málinu og dró trúverðugleika mannsins sem hlaut áverkana í átökunum í mjög í efa.
Birtu myndir af honum á sjúkrahúsi
Stefán Karl Kristjánsson, réttargæslumaður brotaþola í málinu, krafðist í gærmorgun fimm milljón króna í miskabætur fyrir hönd skjólstæðings síns. Tiltók hann sérstaklega framferði Hjalta Úrsusar.
Hann hefði farið mikinn í fjölmiðlum, útbúið heimildarmyndina og dreift myndum af brotaþola, þar á meðal þar sem hann var á sjúkrahúsi. Brotaþola hafi jafnframt verið lýst sem forföllnum fíkniefnaneytanda og framburður hans dreginn í efa.
Það sem Stefán Karl kallaði gegndarlausar myndbirtingar og ófrægingarherferð í garð brotaþola styddi bótakröfuna vegna líkamsárásarinnar.
„Ef þetta er látið óátalið má hugsa sér að brotaþolir hræðist það að standa í þessu ferli,‟ sagði lögmaðurinn.

Lýsti Stefán Karl því ennfremur að skjólstæðingur sinn hefði átt undir högg að sækja í lífinu. Hann hefði meðal annars flúið borgina út í sveit til að losa sig undan þrýstingi vegna þessa máls. Það hefði valdið honum andlegum erfiðleikum.
Sagði að brotaþolinn yrði frægur
Brotaþolanum voru dæmdar fimm hundruð þúsund krónur í miskabætur í héraði.
Þegar málflutningi í Hæstarétti lauk í gær nálgaðist Hjalti Úrsus borðið þar sem Stefán Karl sat ásamt saksóknara og réttargæslumanni fórnarlambs í öðru líkamsárásmáli sem Árni Gils var sakfelldur í.
Sagði Hjalti Úrsus að skjólstæðingur Stefáns Karls yrði frægur þegar myndir yrðu birtar af honum á næstu dögum.
„Getur hann fengið stefgjöld?‟ spurði réttargæslumaðurinn í gamansömum tón á móti.
Fréttin hefur verið uppfærð.