Fótbolti

Strákarnir okkar sparka í „sama“ bolta og Pelé á HM í Rússlandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Adidas Telstar 18 verður notaður á HM 2018.
Adidas Telstar 18 verður notaður á HM 2018. mynd/adidas
Adidas kynnti í gær nýja HM-boltann sem verður notaður í Rússlandi á næsta ári en þar verða strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í fyrsta sinn.

Boltinn fékk nafnið Telstar 18 og er á þrettándi í röðinni hjá Adidas en það hefur búið HM-boltana allar götur frá 1970.

Þessi sækir innblástur til fyrstu keppninnar sem Adidas kom að árið 1970 en það er að sumra mati eitt besta heimsmeistaramót sögunnar.

Þar voru mættar goðsagnir á borð við Pelé, Gerd Müller, Giacinto Facchetti, Pedro Rocha og Bobby Moore en Brasilía, með Pelé í fararbroddi, stóð uppi sem sigurvegari.

Fyrsti Adidas-boltinn hét Telstar en það er í raun stytting á „Star of television“. Það var fyrsti boltinn sem skreyttur var með hvítum og svörtum flötum því hann átti að vera áberandi í sjónvarpstækjum sem sýndu aðeins svart og hvítt.

Þessi ætti að sjást bara nokkuð vel í blússandi háskerpu út um allan heim en Telstar 18 er gæddur öllum helstu nýjungum í boltafræðunum svo það ætti að vera minna mál fyrir Gylfa Þór og strákana okkar að koma boltanum í markið í Rússlandi á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×