Handbolti

Nora Mörk kærir fimmtán menn fyrir að dreifa myndunum af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk
Nora Mörk Vísir/AFP
Norska handboltakonan Nora Mörk ætlar ekki gefa neitt eftir í baráttunni við þá óprúttnu aðila sem brutust inn í símann hennar í haust og komust yfir viðkvæmar myndir af henni.

Nora Mörk steig fram á mánudaginn og fór í sjónvarpsviðtal á norsku sjónvarpsstöðinni TV2 þar sem hún sagði öllum frá raunum sínum en hún upplifði mjög erfiða tíma eftir að menn fóru að dreifa viðkvæmum myndum af henni á netinu.  

Í stað þess að lifa með þetta í felum þá ákvað  hún að gera málið opinbert og hefur í framhaldinu fengið mikinn stuðning allstaðar að. Málið hefur vakið mikla athygli á nettröllum og glæpum sem þessum á netinu.

Um leið og Nora Mörk sagði frá þessu á mánudaginn þá talaði hún einnig um að það að hún ætlaði að kæra alla þá sem hafa dreift þessum viðkvæmu myndum af henni.

Við þau orð stóð hún því í dag kærði tvíburasystir hennar, Thea Mörk, fimmtán menn til lögreglunnar, í Larvik í Noregi, fyrir að dreifa myndum af systur sinni. TV2 segir frá.

„Okkur var full alvara þegar við sögðumst ætla að kæra alla þá sem deila þessum myndum. Við erum þakklátar þeim sem hafa sent okkur skjáskot með upplýsingum um þá aðila sem hafa dreift þessum myndum,“ sagði Thea Mörk í viðtali við TV 2.

Nora Mörk er á leiðinni á heimsmeistaramótið í Þýskalandi með norska landsliðinu í næsta mánuði en í kvöld spilar hún með ungverska liðinu Györ.

Mörk er ein besta handboltakona í heimi og lykilmaður í norska landsliðinu sem hefur unnið gull á HM og EM á síðustu tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×