Myndun slíkrar ríkisstjórnar er þó ekki efst á óskalistanum hjá forystumönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. „Við viljum mynda ríkisstjórn frá vinstri og inn á miðjuna, segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur lýst svipuðum skoðunum og Svandís.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir líklegustu niðurstöðuna eftir kosningar vera fjögurra flokka samstarf til vinstri. „Þó svo að það gæti auðvitað líka verið eitthvað þvíumlíkt í spilunum hægra megin þá held ég að það sé nú ólíklegra,“ sagði Eiríkur Bergmann í hádegisfréttum Bylgjunnar í gær.
Þar benti Eiríkur á að fjögurra flokka stjórn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Viðreisnar, sem hefði 33 þingmenn, gæti vel komist á.
Eiríkur sagði stefna í að Framsóknarflokkurinn og Viðreisn verði í lykilstöðu eftir kosningar. „Það verður erfitt að mynda ríkisstjórnir að afloknum kosningum án þessara flokka, sem geta farið í báðar áttir.“