Innlent

Yfirlögregluþjónn ók rútu eftir að bílstjórinn var kyrrsettur

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Lögreglan á Suðurlandi elti uppi og stöðvaði för rútu með ferðamönnum í austan við Selfoss í gærmorgun. Bílstjóri rútunnar var grunaður um ölvunarakstur. Eftir athugun lögreglu var bílstjórinn kyrrsettur en yfirlögregluþjónn mátti bregða sér í hlutverk rútubílstjóra og keyra ferðamennina sem leið lá til Hvolsvallar þar sem annar rútubílstjóri tók við.

„Það mældist í honum en undir kærumörkum þannig að við stöðvuðum aksturinn og aðstoðuðum farþegana við að komast sinnar leiðar svo þeir sætu nú ekki fastir úti á gatnamótum,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Það kom í hans hlut að taka við stjórn rútunnar og skila ferðamönnunum til Hvolsvallar þar sem annar rútubílstjóri frá viðkomandi hópferðabílafyrirtæki tók við.

Sveinn Kristján segir það gerast reglulega að stöðva þurfi bílstjóra hópferðabíla vegna gruns um ölvunarakstur. Þessi tiltekni bílstjóri hafi þó sloppið með skrekkinn að þessu sinni og hans bíði ekki frekari aðgerðir af hálfu lögreglu. Sveinn segist hafa skilað ferðamönnunum skælbrosandi á leiðarenda.

Í ágúst síðastliðnum var rútubílstjóri tekinn fyrir ölvun við akstur við Jökulsárlón og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Hafði hann verið með hóp erlendra ferðamanna í för um verslunarmannahelgina. Sá bílstjóri var rekinn frá Kynnisferðum þar sem hann starfaði þegar málið kom upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×