Innlent

„Kannski þarf ég bara að láta færa 17. júní“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Guðni fylgdist með karlalandsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í fyrra og kvennaliðinu í Hollandi nú í sumar og ætlar að ferðast til Rússlands á næsta ári til að fylgjast með gengi landsliðsins þá líkt og fjölmargir íslendingar.
Guðni fylgdist með karlalandsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í fyrra og kvennaliðinu í Hollandi nú í sumar og ætlar að ferðast til Rússlands á næsta ári til að fylgjast með gengi landsliðsins þá líkt og fjölmargir íslendingar. Skjáskot
Mikill fjöldi fólks kom saman í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi til að fagna því að íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu stefnir á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi á næsta ári eftir 2-0 sigur á Kósóvó.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segir landsliðið hafa sannað að Ísland geti hæglega breytt smæð sinni í styrkleika. Hann hyggst ferðast til Rússlands á næsta ári til að styðja karlalandsliðið á HM og segir afrek sem þessi sameina þjóðina.

„Við erum smáþjóð en við snúum smæð okkar í styrk. Hvernig stendur á því að við erum í efsta sæti í þessum riðli þótt þar sé líka að finna milljónaþjóðir með frábær knattspyrnulið? Margar ástæður, við höfum frábæran þjálfara, við höfum frábæra liðsheild og við höfum þetta þjóðarstolt og þessa samstöðu,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í samtali við fréttastofu.

Nægur tími til stefnu

Guðni fylgdist með karlalandsliðinu á Evrópumótinu í Frakklandi í fyrra og kvennaliðinu í Hollandi nú í sumar og ætlar að ferðast til Rússlands á næsta ári til að fylgjast með gengi landsliðsins þá líkt og fjölmargir Íslendingar.

„Auðvitað fer ég til Rússlands. Nú vitum við ekki leikdaga eða staði ennþá en hitt veit ég þo´að mótið hefst 14. júní og því lýkur 15. júlí þannig að ég veit ekki alveg hvernig þetta mun spila sig en kannski þarf ég bara að láta færa 17. júní. Nei ég meinti það í gríni,“ segir forsetinn.

„Við munum örugglega hópast fjölmörg til Rússlands en það er ennþá langt þangað til og við höfum ennþá tíma til að plana þetta.

Ísland er fámennasta ríki heims til að senda karlalandslið á HM í knattspyrnu en Trínidad og Tóbagó var áður fámennasta þjóðin til að komast á HM þegar lið þeirra komst á HM árið 2006 í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×