Innlent

Fá nýja sérgreinalækna á Sjúkrahúsið á Akureyri

Sveinn Arnarsson skrifar
Fleiri sérgreinalæknar eru komnir til Sjúkrahússins á Akureyri (SAK) þó ekki sé búið að manna allar stöður. Ráðningar ganga nú betur.
Fleiri sérgreinalæknar eru komnir til Sjúkrahússins á Akureyri (SAK) þó ekki sé búið að manna allar stöður. Ráðningar ganga nú betur. vísir/pjetur
Undanfarin misseri hefur gengið betur að ráða sérgreinalækna á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK) en síðustu ár að mati Sigurðar Einars Sigurðssonar, framkvæmdastjóra lækninga á SAK. Sjúkrahúsið hefur unnið að því að fá til sín sérgreinalækna síðustu ár en oft ekki haft erindi sem erfiði.

„Við erum búin að ráða bæklunarskurðlækna, svæfinga- og gjörgæslulækna, almenna skurðlækna, þvagfæraskurðlækni og lyflækni svo eitthvað sé nefnt,“ segir Sigurður.  „Við erum ekki komin á þann stað að manna allar stöður en staðan í mörgum greinum er betri en oft áður.“

Að auki nefnir Sigurður að vel hafi gengið að ráða unglækna við sjúkrahúsið. Þær stöður eru nokkuð mikilvægar að mati Sigurðar. „Þá hefur vel gengið að manna unglæknastöður hjá okkur. Það er alltaf gott ef við horfum fram í tímann.“ 

Fyrir viku tilkynnti sjúkrahúsið að nýr þvagfæraskurðlæknir hafi verið ráðinn í hlutastarf til sjúkrahússins. Sá heitir Jón Örn Friðriksson. „Jón Örn mun starfa í hlutastarfi og alla jafna vera á sjúkrahúsinu vikulega, þriðjudaga og miðvikudaga. Hann mun sinna göngudeildarþjónustu þvagfæravandamála, legudeildarsjúklingum og speglunum ásamt aðgerðum á skurðstofu,“ sagði í tilkynningu sjúkrahússins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×