Erlent

Sagðist vilja tífalda kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Óljóst er hvort að Donald Trump hafi verið alvara með óskina um fjölgun kjarnavopna.
Óljóst er hvort að Donald Trump hafi verið alvara með óskina um fjölgun kjarnavopna. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti vill tífalda kjarnorkuvopnabúr Bandaríkjanna að stærð. Þetta á Trump að hafa sagt á fundi hans og fjölda háttsettra manna innan Bandaríkjastjórnar, meðal annars Rex Tillerson utanríkisráðherra, í bandaríska varnarmálaráðuneytinu í sumar.

Frá þessu greinir NBC og vísar í þrjá ónafngreinda heimildarmenn sem sóttu fundinn. Það var fljótlega eftir þann fund, þann 20. júlí, sem Tillerson á að hafa kallað Trump „fávita“.

Í frétt NBC kemur fram að eftir að hafa séð gögn um hvernig kjarnavopnum Bandaríkjanna hafi fækkað frá lokum sjöunda áratugsins eigi Trump að hafa sagt að hann vilji stöðva fækkun kjarnavopna Bandaríkjahers. Sagði Trump að þess í stað vilji hann sjá fram á að kjarnorkuvopnabúrið yrði tífaldað að stærð.

Að sögn heimildarmanna NBC féllu orð Trump ekki í góðan jarðveg á fundinum og nefndu aðrir fundarmenn þær lagalegu og praktísku hindranir sem stæðu í veg fyrir slíkri fjölgun.

Óljóst er hvort að Trump hafi verið alvara með ósk sína um fjölgun kjarnavopna.

Uppfært 14:25:

Donald Trump hafnar því sem fram kemur í frétt NBC í færslu á Twitter. Segir hann fréttina „falska“. Þá spyr forsetinn hvenær rétti tíminn sé til að kanna hvort hægt sé að svipta NBC réttindum sínum, sökum allra þeirra fölsku frétta sem þar birtast.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×