Fréttablaðið byggði verðathugun sína á forsendum könnunar FÍB frá því fyrir ári. Miðað er við meðalfólksbíl á álfelgum með hjóla- og dekkjastærð 205/55 R16, sem FÍB segir eina algengustu stærðina undir fólksbílum hér á landi. Valin voru 9 fyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu úr umfelgunarverðkönnun ASÍ frá því í apríl síðastliðnum, en verð kannað hjá Costco að auki sem ekki hafði opnað þegar ASÍ gerði sína athugun. Mörg fyrirtæki brugðust við komu Costco á dekkjasölumarkað með verðlækkunum fyrr á þessu ári.

Ódýrast var að láta skipta um dekk hjá fyrirtækinu Titancar á Smiðjuvegi í Kópavogi, eða 5.000 krónur sem var einnig lægsta verðið í verðkönnun ASÍ í apríl. Næstódýrastir voru Dekkverk á Nýbýlavegi í Kópavogi, með 6.400 krónur.
Dýrast er að láta N1 skipta um dekkin eða 9.493 krónur. Þar var bent á að N1 korthafar fengju þó afslátt af því verði. Næstdýrastir eru Max 1, þar sem umfelgunin kostar 9.200 krónur.
Hjá Costco er ekki hægt að kaupa bara umfelgun, en hún er innifalin í verði dekkjaumgangsins. Það þarf því að kaupa dekkin þar til að fá fría umfelgun. Þar fengust sömuleiðis þær upplýsingar í gærmorgun að mánaðarbið væri eftir dekkjaskiptum þar.

Umbeðin dekkjastærð í Costco reyndist nokkuð dýr þar samanborið við ódýrustu tegund annars staðar og kostaði umgangurinn af Michelin-vetrardekkjum þar rúmar 70 þúsund krónur. Af þeim sökum var hæsta heildarverðið í Costco, þrátt fyrir að umfelgun væri innifalin.
Af þessari könnun má ráða að það borgi sig sem fyrr fyrir neytendur að gera verðsamanburð áður en haldið er af stað í dekkjaskipti fyrir veturinn. Vert er þó að hafa í huga að dekk eru eitt mikilvægasta öryggistæki allra bifreiða og ekki mælt með að einblína á verðið þegar leggja á út fyrir þeim.
Innsláttarvilla var í töflunni sem birtist í Fréttablaðinu í morgun þar sem sagði að heildarverð Vöku væri 51.981. Hið rétta er að heildarverð Vöku er 41.981 kr.