Erlent

Trump hefur hrapað um 92 sæti á lista Forbes

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Donald Trump hefur gortað sig af ríkidæmi sínu við hin ýmsu tækifæri.
Donald Trump hefur gortað sig af ríkidæmi sínu við hin ýmsu tækifæri. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fallið um 92 sæti á lista Forbes yfir auðugustu Bandaríkjamennina. The Guardian greinir frá.

Samkvæmt Forbes eru auðæfi forsetans nú metin á 3,1 milljarð Bandaríkjadala en þau voru metin á 3,7 milljarða dala. 3,1 milljarður dala samsvarar tæplega 330 milljörðum íslenskra króna.

Trump er nú í 248. sæti á lista Forbes en samvæmt tímaritinu hefur verðgildi nokkurra fasteigna forsetans á Manhattan rýrnað frá því í fyrra. Microsoft-mógúllinn Bill Gates trónir á toppnum líkt og síðustu ár en á hæla hans kemur Jeff Bezos, framkvæmdastjóri Amazon. Bezos skaust fram úr Gates þann 27. júlí síðastliðinn en forskotið varði aðeins í fáeinar klukkustundir.

Donald Trump talaði fjálglega um auðæfi sín í aðdraganda forsetakosninganna á síðasta ári. Hann fullyrti margsinnis að auðæfi sín væru metin á um níu milljarða Bandaríkjadala sem kom ekki heim og saman við upplýsingar Forbes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×