Fótbolti

Gerard Pique: Ég lauma mér ekki út um bakdyrnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerard Pique í spænska landsliðsbúningnum.
Gerard Pique í spænska landsliðsbúningnum. Vísir/Getty
Barcelona-maðurinn Gerard Pique bauðst til að hætta í landsliðinu eftir að íbúar Katalóníu kusu sér skjálfstæði frá Spáni. Sú yfirlýsing fór mjög illa í marga Spánverja.

Pique er stoltur Katalóníumaður og óhræddur við að blanda sér inn í þetta sjóðheita mál á Spáni. Fyrir vikið hefur hann oft fengið óblíðar móttökur.

Svo var einnig í vikunni þegar áhorfendur á æfingu spænska landsliðsins bauluðu á hann.

„Það getur enginn efast um mína skuldbindingu til spænska landsliðsins því ég hef verið hér síðan ég var fimmtán ára og ég lít á þetta lið sem fjölskyldu mína,“ sagði Gerard Pique þegar hann hitti blaðamenn í dag.

„Ég er stoltur af því að vera í spænska landsliðinu og hluti af þessum hóp. Það er aftur á móti ekki gaman þegar fólk, sem styður liðið þitt, sé á móti þér. Ég er kominn hingað til að reyna að breyta því,“ sagði Pique.

„Ég trúi því að með virðingu og samstöðu þá getum við leyst þetta mál,“ sagði Pique.

„Ef ég hætti í landsliðinu nú þá myndi fólk halda að það gæti náð einhverjum árangri með bauli og móðgunum. Ég lauma mér ekki út um bakdyrnar. Þetta lið og spænska knattspyrnusambandið er fjölskylda mín. Ég vil halda áfram að spila með liðinu,“ saðgi Gerard Pique.

„Ég get vel skilið að liðsfélagarnir mínir séu orðnir leiðir á þessu. Þess vegna kem ég núna til ykkar til að svara öllum spurningum sem brenna á mönnum,“ sagði Pique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×