Þar sem Emil Hallfreðsson er í leikbanni er nær öruggt að Birkir Bjarnason verði með Aroni á miðjunni í 4-5-1 kerfinu og Gylfi Þór Sigurðsson fyrir framan þá. Birkir hefur áður leyst af á miðjunni, meðal annars í sigrinum gegn Tyrklandi í fyrra, og gert það vel.
Jóhann Berg verður á sínum stað en þar sem Birkir færir sig inn á miðjuna fær væntanlega Arnór Ingvi Traustason eða Rúrik Gíslason tækifæri í byrjunarliðinu. Miðað við að Rúrik hefur verið að vinna sig framar í goggunarröðina og Arnór Ingvi ekki fengið sömu tækifærin og á síðasta ári reiknar Vísir með Rúrik á hinum kantinum.
Jón Daði Böðvarsson spilaði gríðarlega vel í leiknum á móti Úkraínu eftir að Alfreð Finnbogason var í basli á móti Finnlandi en það virtist henta Gylfa Þór betur að hafa Jón Daða að vinna í kringum sig. Þannig fékk Gylfi meira að sjá boltann sem skilaði sér í tveimur mörkum.
Kári Árnason var bekkjaður fyrir leikinn á móti Úkraínu eftir að vera alveg búinn eftir tapið í Finnlandi en hann var þá ekki í miklu leikformi. Sverrir Ingi Ingason spilaði stórvel á móti Úkraínu en líklegt þykir að Heimir haldi sig við miðvarðaparið Ragnar og Kára Árnason í þessum mikilvæga leik. Sverrir gæti þá aftur komið inn í liðið fyrir leikinn á móti Kósóvó á mánudaginn.

Tvær breytingar hjá Tyrklandi
Tyrkneskir blaðamenn sem íslenska pressan hefur rætt við eru ekki samstíga í því hvort þeirra menn stilli upp í 4-5-1 eða 4-4-2. Sumir hér í Eskisehir sjá fyrir sér 4-5-1 og að Burak Yilmaz, framherjinn öflugi, verði bekkjaður.Aftur á móti hefur Vísir fengið aðrar upplýsingar frá blaðamönnum í Istanbúl en þar var fullyrt í blaðinu Milliyet í dag að Mircea Lucescu, þjálfari Tyrklands, myndi halda sig við 4-4-2 kerfið sem gaf sigurinn á móti Króatíu.
Rúmenski þjálfarinn, sem verður í leikbanni annað kvöld, veit að hann verður að skora mark eða mörk og vinna leikinn ætli hann að koma liðinu áfram og því er hann sagður ætla að stilla upp tveimur framherjum.
Hann þarf að gera eina breytingu vegna leikbanns Hakans Calhanaglu og inn fyrir hann kemur á hægri kantinn Caglar Söyüncü, leikmaður Freiburg. Reynsluboltinn Emre Belezoglu kemur svo inn á miðjuna fyrir Besiktas-manninn Oguzhan Özyakup.
Leikur Tyrklands og Íslands hefst klukkan 18.45 að íslenskum tíma annað kvöld og verður í beinni textalýsingu á Vísi.