Fótbolti

Gylfi: Getum ekki beðið eftir að fara til Rússlands

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson, lagði upp eitt mark og skoraði annað, í 2-0 sigri Íslands á Kósóvó. Sigurinn gerði það að verkum að Ísland tryggði sig inn á HM í Rússlandi 2018.

„Ég veit það ekki. Þetta er geggjað. Frábært að við stóðumst pressuna. Það er erfitt að lýsa þessu og þetta er eitthvað sem okkur er búið að dreyma um síðan maður var lítill krakki,“ sagði Gylfi Þór í samtali við Vísi.

„Það var mikið af fólki sem hélt að við værum búnir eftir EM, að við myndum hrynja niður og myndum ekki ná sama árangri. Það gerir þetta enn sætara að ná að sýna að við erum meiri karakterarar en bara eitt stórmót. Að vera leiðinni núna á HM er rosalegt."

Þegar Gylfi var beðinn um að bera saman EM og HM segir hann að þetta sé vitaskuld ögn stærra.

„Þetta er mikið stærra. Nú spilum við bestu lönd í heiminum, mikið stærri keppni og þetta er næstum því eins stórt og þetta gerist. HM er toppurinn og það verður erfitt að toppa þetta.“

Hann segir að leikurinn í kvöld hafi ekkert verið sérstakur, en liðið gerði það sem þurfti.

„Það fór mikið púst í leikinn gegn Tyrklandi. Langt ferðalag, spennan og eftirvæntingin fyrir leik tekur á, en ég held aðv ið höfum sýnt þolinmæði. Þetta var ekkert sérstakur leikur, en við skoruðum í fyrri hálfleik og vörðumst síðustu fimm mínúturnar.“

„Síðan gerðum við það eiginlega sama í síðari hálfleik, við vorum ekki að taka neina sénsa þrátt fyrir að við höfum fengið fullt af færum. Ég held að við höfum lært af Kazakstan leiknum síðast.“

„Ég held að síðustu fjögur til fimm ár, síðan Lars og Heimir tóku við, þá hefur mikið gengið upp. Við höfum verið að spila stóra leiki, sérstaklega í þessari keppni.“

„Síðustu tveir leikir hafa verið úrslitaleikir fyrir okkur, en við sýnum það sérstaklega upp á síðkastið að við getum staðist þessa pressu, sérstaklega á klárum varnarleik.“

Framundan eru spurningar um fótboltahallirnar, þjálfarana á Íslandi og fleira. Gylfi er spenntur.

„Þetta verður endurtekning á EM. Það fer allt af stað núna, en þetta verður gaman og við getum ekki beðið eftir að fara til Rússlands," sagði Gylfi að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×