Íslendingar unnu 2-0 og tryggðu sér þar með sæti á HM í Rússlandi á næsta ári.
„Maður fór inn í þessa undankeppni með engar væntingar. Mann dreymdi um þetta og þetta er orðið að veruleika,“ sagði Jón Daði.
„Þetta var svakalega erfiður leikur og það var mikil spenna. Við erum mennskir og þú verður að beina spennunni á réttan stað. Við náðum því þótt við höfum oft spilað betri leiki. En það mikilvægasta var að við héldum skipulagi og náðum að skora tvö mörk.“
Ísland tapaði fyrir Finnlandi í 7. umferð undankeppninnar en vann næstu þrjá leiki með markatölunni 7-0.
„Það kemur sem betur fer nýr leikur. Við vorum mjög ósáttir með þann leik. En íslenska landsliðið tapar ekki tveimur leikjum í röð,“ sagði Jón Daði.
„Þetta er ótrúlegt lið og þessi þéttskipaði hópur er rosalega flottur.“