Fulltrúar Facebook greindu bandarískum rannsakendum frá því í upphafi mánaðarins að rússnesk fyrirtæki sem þekkkt eru fyrir að dreifa áróðri í þágu stjórnvalda í Kreml hafi keypt þúsundir auglýsinga í aðdraganda kosninganna. Kaupverðið var um 100 þúsund dalir, næstum 11 milljónir króna.
Talið er að auglýsingarnar hafi verið rúmlega 3000 talsins og dreifst yfir næstum tveggja ára tímabil, frá júní 2015 fram í maí í ár.
Sjá einnig: Facebook seldi rússnesku fyrirtæki auglýsingar fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum
Í beinni Facebook-útsendingu í gærkvöldi greindi forstjóri samfélagsmiðilsins, Mark Zuckerberg, frá níu stiga aðgerðaráætlun sem fyrirtækið hefur sett saman til að koma í veg fyrir að áróður af þessu tagi fái brautargengi á miðlinum.
Facebook hefur veitt sérstakri rannsóknarnefnd Roberts Mueller, sem kannar tengsl kosningateymis Trump við rússnesk stjórnvöld, aðgang að fyrrnefndum gögnum og upplýsingar um hverjir stóðu að baki auglýsingakaupunum.
„Ég ætla ekki að sitja hér og segja ykkur að við munum ná að koma í veg fyrir allt slæmt á miðlinum. Við könnum ekki hvað fólk skrifar áður en það birtir það og ég er nokkuð viss um að samfélagið myndi ekki vilja hafa það þannig. Frelsi þýðir að þú þurfir ekki að spyrja um leyfi fyrst,“ sagði Zuckerberg í yfirlýsingunni sem sjá má hér að ofan.