Erlent

Vona að peningar bjargi heilbrigðisfrumvarpinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lindsay Graham, aðrir forsvarsmenn frumvarpsins og Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni ræddu við fjölmiðla í gær.
Lindsay Graham, aðrir forsvarsmenn frumvarpsins og Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni ræddu við fjölmiðla í gær. Vísir/GEtty
Leiðtogar repúblikana í öldungadeild bandaríkjaþings reyna nú að bjarga nýjustu tilraun þeirra til að fella niður núverandi heilbrigðis- og sjúkratryggingakerfis Bandaríkjanna, sem gengur undir nafninu Obamacare. Þingmaðurinn Ted Cruz lýsti því yfir í gær að hann gæti ekki stutt frumvarpið í núverandi mynd en fyrir höfðu tveir aðrir þingmenn sagt að þeir myndu alls ekki greiða atkvæði með því.

Allt í allt hafa þrír þingmenn sagt að þeir styðji ekki frumvarpið og tveir hafa sagt að þeir muni alls ekki greiða atkvæði með því. Þingmenn Repúblikanaflokksins í öldungadeildinni eru 52 á móti 48 þingmönnum Demókrataflokksins. Til að ná frumvarpinu í gegnum þingið þarf að greiða atkvæði um það í þessari viku.



Sjá einnig: McCain bregður fæti fyrir flokksbræður sína, aftur



Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar hafa forsvarsmenn frumvarpsins aukið fjárveitingu til heilbrigðismála í frumvarpinu um 14,5 milljarða dala. Þar af verða aukafjármunir veittir til ríkja þeirra þingmanna sem hafa lýst yfir andstöðu við frumvarpið.

Þá steig Donald Trump, forseti, fram á Twitter um helgina og á milli tísta um íþróttamenn og amerískan fótbolta, Gagnrýndi hann þingmennina John McCain og Lisu Markowski fyrir andstöðu þeirra og kallaði eftir stuðningi við frumvarpið í fjölda tísta.

Demókratar í öldungadeildinni eru alfarið á móti frumvarpinu og er útlit fyrir að frumvarpið muni ekki komast í gegnum þingið. Trump virðist þó borubrattur ef marka má orð hans til blaðamanna um borð í Air Force One í gær um að það muni á endingu takast að fella niður Obamacare. Þá var hann á leið aftur tli Washington DC eftir að hafa varið helginni á golfvelli sínum í New Jersey.

„Á endanum munum við vinna, hvort sem það verður nú eða síðar,“ sagði forsetinn samkvæmt frétt Washington Post.

Samþykkja verður frumvarpið fyrir þann 30. september, þar sem þingreglur segja til um að 60-40 meirihluta þurfti til að koma frumvörpum sem snúa að sköttum og fjárlögum ríkisins í gegnum þingið eftir það.

Hin sjálfstæða stofnun Congressional Budget Office, sem er nokkurs konar ríkisendurskoðun Bandaríkjanna, mun í vikunni skila bráðabirgðamati á því hvaða áhrif frumvarpið myndi hafa á rekstur ríkisins. Stofnunin hefur þó ekki tíma til að meta hvaða áhrif það myndi hafa á tryggingamarkaðinn ef frumvarpið verður að lögum.


Tengdar fréttir

Kalt stríð sagt ríkja á milli Trump og McConnell

Samband Donald Trump, forseta Bandaríkjanna og Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, er sagt vera komið á það stig að þeir hafi ekki talast við vikum saman




Fleiri fréttir

Sjá meira


×