Fótbolti

Sturluð ásókn í miða á Kósóvóleikinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þeir sem skella sér í röðina eftir miðum eftir klukkan 12:01 virðast eiga litla möguleika á að fá miða á stórleikinn í Laugardalnum.
Þeir sem skella sér í röðina eftir miðum eftir klukkan 12:01 virðast eiga litla möguleika á að fá miða á stórleikinn í Laugardalnum.
Líklegt er að margur faðirinn og móðirin muni þurfa að færa börnum sínum þau leiðinlegu tíðindi í dag að þau komist ekki á landsleik Íslands gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018. Ljóst er að mun færri komast að en vilja á þennan leik sem allt stefnir í að verði afar þýðingarmikill fyrir strákana okkar.

Miðasala hófst klukkan 12 á hádegi á midi.is en óvíst er hve margir miðar eru í boði. 1500 miðar voru seldir stuðningsmönnum á alla heimaleiki Íslands auk þess sem vænn hluti miða, á annað þúsund, fer til styrktaraðila KSÍ.

Ekki eru neinir miðar seldir stuðningsmönnum Kósóvó svo öll sætin eru í boði fyrir stuðningsmenn Íslands.

Miðasala er enn í gangi en hver stuðningsmaður má að hámarki kaupa fjóra miða. Þegar blaðamaður fór í röðina í miðasöluna klukkan 12:30 var hann númer 5308 í röðinni. Ljóst er að margir voru tilbúnir til tölvuna á slaginu 12. Þar getur hver sekúnda skipt máli.

Ísland er jafnt Króatíu í efsta sæti síns riðils í undankeppni HM 2018 og á góðan möguleika á að tryggja sér sæti í lokakeppninni í Rússlandi.

Strákarnir fara þó fyrst til Tyrklands og mæta heimamönnum ytra þann 6. október. Þar má Ísland ekki við því að tapa leiknum ætli strákarnir sér til Rússlands.

Ísland mætir svo Kósóvó á heimavelli þann 9. október og gæti verið úrslitaleikur fyrir okkar menn um HM-sætið. 

Uppfært klukkan 13:00

Uppselt er á leikinn og ljóst að mun færri komust að en vildu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×