Erlent

Lavrov heitir harkalegum viðbrögðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Vísir/EPA
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, heitir því að stjórnvöld Rússlands muni bregðast harkalega við aðgerðum Bandaríkjanna, sem ætlað sé að valda Rússlandi skaða. Þetta sagði ráðherrann degi eftir að yfirvöld Bandaríkjanna skipuðu Rússum að loka þremur starfsstöðvum sínum í Bandaríkjunum.

Lavrov kvartaði einnig yfir því að þeir hefðu einungis fengið 48 klukkustundir til að fylgja tilmælum ráðamanna í Washington.

Sjá einnig: Rússum gert að loka starfsstöðvum í Bandaríkjunum

„Við munum bregðast við um leið og við ljúkum greiningu okkar,“ sagði Lavrov við rússneska nemendur í dag, samkvæmt frétt Reuters.

Lavrov bætti við að hann vildi segja nemendunum alla söguna um samskipti Bandaríkjanna og þær refisaðgerðir sem hafa farið ríkjanna á milli á udanförnum árum.

„Það var ríkisstjórn Obama sem byrjaði til að grafa undan samskiptum ríkjanna og til að koma í veg fyrir að Trump gæti komið uppbyggilegum hugmyndum sínum í verk og staðið við kosningaloforð sín,“ sagði Lavrov.

Aðgerðirnar hófust 2014

Þau ummæli ráðherrans eru þó ekki rétt.

Ríkisstjórn Barack Obama, í samvinnu með Evrópusambandinu, beitti Rússum refsiaðgerðum eftir innlimun þeirra á Krímskaga árið 2014 og hernaðaraðgerðir þeirra í austurhluta Úkraínu. Viðskiptaþvinganir hafa svo jafnvel verið hertar síðan.

Það var svo í desember í fyrra sem ríkisstjórn Obama lét reka 35 rússneska erindreka og njósnara frá Bandaríkjunum eftir að leyniþjónustur Bandaríkjanna komust að þeirri niðurstöðu að yfirvöld í Rússlandi hefðu reynt að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og hjálpa Donald Trump.

Lavrov hélt því einnig fram í dag, samkvæmt fréttaveitunni Tass, að þingmenn í Bandaríkjunum stæðu að baki aðgerðunum gegn Rússlandi. Markmið þeirra væri að grafa undan ríkisstjórn Donald Trump.

(Uppfært: Í fyrstu stóð hér að ofan að Lavrov væri utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Það voru mistök og hefur það verið lagað.)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×