Miðað við úrslit kvöldsins er tapið gegn Finnum um síðustu helgi enn sárara, þar sem stig þar hefðu sett Ísland á topp riðilsins í kvöld.
„Auðvitað var það sárt. En þetta var annar leikurinn sem við töpuðum í riðlinum svo í heildina getum við ekkert verið að hugsa um það. Við vorum svolítið heppnir í sumum leikjum og hlutirnir hafa dottið fyrir okkur en það gekk ekki upp í síðasta leik. Við sýndum okkar rétta andlit í dag,“ sagði Gylfi.
Aðspurður hvað honum fyndist hafa gengið best í dag sagði Gylfi: „Aðallega hugarfarið og hvernig við byrjuðum leikinn. Við vorum á tánum og vorum að vinna seinni boltann og fyrsta boltann líka. Bara rúlluðum hægt og rólega yfir þá.“
Ísland hélt markinu hreinu í kvöld, sem gæti orðið liðinu mikilvægt ef úrslitin í riðlinum ráðast á markatölu. Gylfi sagði það einnig gott fyrir hugarfarið í liðinu að fá ekki á sig mark.
„Þessi riðill er svo þéttur, þetta fer greinilega fram í síðasta leik. Ég veit ekki hvernig reglurnar eru en væntanlega er eitthvað með markatöluna að gera varðandi annað sætið. Það var frábært fyrir liðið að halda hreinu og spila eins og við gerðum í dag, þeir sköpuðu sér ekki mikið af færum, áttu eitt skot snemma í leiknum sem Hannes varði og svona í heildina litið vorum við mjög góðir.“
Gylfi skoraði bæði mörk Íslands í kvöld og er nú orðinn jafn Ríkharði Jónssyni í markaskorun fyrir íslenska landsliðið. Hann viðurkenndi að það hefði kitlað að ná í þrennuna í kvöld.
„Ég var að vonast til að fyrirgjöfin þegar Raggi rétt kom við boltann að hann myndi fara inn, þá ætlaði ég að reyna að taka það mark. Vonandi skora ég þrennu á móti Tyrklandi,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson.